143. löggjafarþing — 91. fundur,  7. apr. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[16:20]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Mig langar að tala um almennu grundvallaratriðin í þessari aðgerð og prinsippin. Ég er þeirrar skoðunar að hlutverk ríkisvaldsins í opnu hagkerfi og lýðræðislegu samfélagi sé að reyna að stuðla að því að grundvöllurinn sé sem bestur, að það ríki stöðugleiki og gagnsæi í ákvarðanatöku og það sé heilbrigt stjórnmálaástand þannig að einstaklingarnir sjálfir geti tekið ákvarðanir sem byggja á þeirra mestu styrkleikum. Gott hagkerfi einkennist af frelsi og ábyrgð einstaklinganna og stöðugri hagstjórn.

Það varð efnahagshrun og ég tek undir það, það þurfti að gera mjög mikið. Við höfum gert það. Við höfum meira að segja stofnað til úrræða sem gera fólki kleift eftir ákveðinn feril að afskrifa allar sínar skuldir ef það er í miklum vanda, en þetta er gert til að mæta þeim sem eru í miklum vanda. Annað hlutverk ríkisvaldsins er að reyna að bjóða upp á úrræði fyrir þá sem eru í mjög miklum vanda.

En hvað er verið að gera hér? Að mínu viti er verið að fara í aðgerð sem er algerlega úr samhengi við allt skynsamlegt meðalhóf sem heitir í raun og veru bara það að ríkisvæða einkaskuldir. Það á að bjóða upp á ríkisábyrgð á einkaskuldum fólks algerlega án tillits til eignarstöðu þess. Mér finnst þetta stórbrotið og ég er ósammála því að þetta geti verið skynsamleg hagstjórn. Nú langar mig til að spyrja hæstv. ráðherra, ekki síst vegna þess að hann er formaður Sjálfstæðisflokksins, hvernig þessi aðgerð samrýmist grunnstefnu Sjálfstæðisflokksins um frelsi og ábyrgð einstaklinga, um lítil inngrip á markaði, um lítil ríkisafskipti og um ábyrgð í ríkisfjármálum.