143. löggjafarþing — 91. fundur,  7. apr. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[20:01]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Við ræðum frumvarp til laga um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána. Þetta mál er mér afskaplega erfitt. Ég vil byrja á að þakka hæstv. fjármálaráðherra Bjarna Benediktssyni, formanni Sjálfstæðisflokksins, fyrir það hvað hann hefur unnið ötullega að því að halda ríkisábyrgð fjarri þessu máli, líka að standa í ístaðinu við að hindra það að skuldbindingin yrði meiri og takmarka hana við það sem um var rætt.

Ég vil líka taka fram að ég er hlynntur því frumvarpi sem fylgir þessu, séreignarsjóðafrumvarpinu, vegna þess að það felur í sér skattalækkun og ég er ávallt hlynntur þeim.

Ég verð þó að segja að þetta mál sem við ræðum nú er þess eðlis að ég get ekki stutt það.

Menn hafa fundið upp nýtt orð, forsendubrest. Útgjöld til húsnæðismála eru yfirleitt 20–25% af útgjöldum heimilis, þ.e. leiga eða vextir eða afskriftir af íbúðum. Þá eru 75% eitthvað annað og það merkilega er að það er líka verðtryggt. Bleiurnar á börnin hafa hækkað eins og gengið og fötin, maturinn, eplin o.s.frv. Forsendubresturinn varð líka í framfærslunni. Ef forsendubresturinn var út af lánum sem skuldbreyttust var líka forsendubrestur í framfærslunni.

Svo skil ég ekki orð eins og forsendubrest. Það er eins og eitthvað hafi komið óvænt upp, eitthvað sem menn áttuðu sig ekki á. Þeir þurftu samt ekki nema að spyrja pabba og mömmu því að það eru 25 ár síðan við vorum með 30–80% verðbólgu. Er einhver hissa á að það komi 18% verðbólguskot einu sinni? Ég man þá tíð að það var 5% verðbólga á mánuði. Þeir sem urðu svona hissa á að einhverjar forsendur breyttust hefðu ekki þurft að gera annað en að spyrja foreldra sína sem hafa búið á Íslandi og hefðu þá fengið það svar að það hefur verið verðbólga hérna endrum og eins, og meira að segja verðbólguskot.

Margir héldu laununum sínum en langtum fleiri misstu eitthvað af þeim. Margir voru í tveimur störfum fyrir hrun. Ég man þá tíð þegar góðærið var, þá var fólk í tveimur störfum. Það missti annað starfið. Svo voru margir sem misstu vel launuð störf í bankakerfinu og víðar. Atvinnuleysið jókst og ég kalla það forsendubrest þegar atvinnuleysi á Íslandi rýkur úr því að vera sáralítið yfir í það að vera meira en 10%. Það er forsendubrestur — en það er ekki það sem menn eru að skilgreina hérna. Ég held að einhverjum snjöllum skuldurum hafi dottið þetta ágæta orð í hug.

Menn keyptu íbúð, það er ein af ráðstöfununum sem menn gera. En menn eignast líka börn og stofna heimili. Er þá ekki forsendubrestur þegar tekjurnar hverfa og framfærslan rýkur upp? Ég held að þetta orð, forsendubrestur, eigi ekki við um þann hóp sem við erum að tala um. Hann á við allt annan hóp, þá sem misstu vinnuna og þá sem lentu í vanda af því að framfærslan jókst.

Hvað ætla menn að gera ef verðbólgan verður allt í einu lítil? Ætla menn þá að endurgreiða þetta? Er þá kominn forsendubati? Eigum við þá að ganga til þessa sama fólks og segja: Heyrðu, þú fékkst þarna 4 milljónir, skilaðu þeim. Nú er verðbólgan komin niður í 0,5% og forsendubresturinn er farinn.

Þar fyrir utan hefur íbúðaverð hækkað síðustu þrjú árin umtalsvert umfram verðbólguna og lánin þannig að staðan er að batna allverulega.

Það er sorglegt þegar maður heyrir fólk tala um verðtryggingu og verðbætur. Það er sorglegt vegna þess að það lýsir þvílíkri — ég veit ekki hvað ég á að kalla það. Það er fráleitt þegar menn tala um að verðbætur séu gjöld fyrir þann sem greiðir og tekjur fyrir þann sem fær. Verðbætur og verðtrygging gera ekkert annað en að viðhalda verðmæti viðkomandi eignar eða skulda. Maður heyrir menn aftur og aftur tala eins og verðbætur séu tekjur eða gjöld. Það eina sem þær gera er að viðhalda eigninni og skuldinni, passa að hún hverfi ekki.

Í fjölda ára var fasteign eini möguleiki fólks á Íslandi til að spara. Menn byggðu og keyptu fasteign og það var í rauninni lífeyrir Íslendinga. Þeir keyptu til að spara vegna þess að íbúðir hafa yfirleitt til lengri tíma fylgt verðlagi, þær eru verðtryggðar. Þannig gátu menn eignast verðtryggða eign.

Síðan gerist það stuttu fyrir hrun, nákvæmlega 2004, að bankarnir fóru inn á lánamarkaðinn eftir að hafa fengið lánshæfismat eins og ríkið og gátu farið í samkeppni við ríkisbankann Íbúðalánasjóð. Þeir dældu peningum inn á íbúðamarkaðinn og eins og alls staðar hækkaði verðið, það er bara mjög einfalt. Verðið hækkaði og hækkaði og náði hámarki í október 2007 og síðan féll það. Þetta er ósköp venjuleg fasteignabóla. Við sjáum hana víðar, hún er verri á Írlandi og er þó engin verðtrygging þar. Og þar er evra. Írar segja sjálfir að staðan hjá þeim sé verri en á Íslandi.

Þetta er hægt að tímasetja nokkuð nákvæmlega. Þeir sem lentu í þessum vanda eru þeir sem keyptu eftir 1. nóvember 2004 og fyrir 1. júní 2009 miðað við verðið í dag. Sá hópur sem keypti þarna á milli tapaði, eitthvað um 20 þús. manns. Ef maður reiknar út tapið, ég hef gert það, þar sem menn tapa í þeim skilningi að lánið hækkaði meira en íbúðin, er heildartapið 35–40 milljarðar. Það mætti sem sagt bæta öllum þessum hóp upp allt tapið. Þarna liggur vandinn. En það stendur ekki til að bæta fyrir það með þessum aðgerðum.

27% heimila á Íslandi eru leigjendur, þau leigja íbúðina sem þeir búa í. 21% býr í skuldlausri eign, það er eldra fólkið sem er búið að borga upp lánin sín þrátt fyrir verðtryggingu. Einhvern tímann eru lánin búin. Tæplega helmingur heimila býr í íbúð sem hann skuldar ekki í og þetta frumvarp kemur ekkert við það fólk. Það er ágætt að eiga skuldlausa eign en sumir hafa mjög lágan lífeyri til að lifa af.

Leigjendur eru í hörmulegri stöðu, ég hef margoft bent á það. Þeir eru flestir með verðtryggða leigu. Er það ekki forsendubrestur þegar leigan hækkar og hækkar, 18% þegar verst lét? Það er ekkert gert fyrir þann hóp, hann fær sínar húsaleigubætur sem eru samtals um 4,7 milljarðar — á móti 80 milljörðum.

Varðandi skuldsett heimili er dálítið merkilegt að þegar menntun eykst í þjóðfélaginu vex skuldsetning. Af hverju? Námslánið er skuld, engin eign er á móti á skattframtalinu. Það er engin eign á móti námslánum þannig að eftir því sem þjóðin er duglegri að mennta sig, þeim mun meiri er skuldsetningin og öfugt. Það vantar inn í væntanlegt verðmæti menntunarinnar sem er mjög mikið. Þetta var svona útúrdúr hjá mér.

Það sem við erum að tala um núna eru gífurlegir peningar. Talan er 8 með 10 núllum á eftir. Þetta eru nokkurn veginn 250 þús. kr. á hvern Íslending, litlu börnin talin með sem og gamla fólkið. Þetta eru um 600 þús. kr. á hvert heimili. Öðruvísi fram sett er það einn spítali, takk, sem á að setja í þetta. Þetta væri í lagi ef ríkissjóður væri vel stæður en því er ekki að heilsa. Hann er að borga nokkurn veginn þetta í vexti á hverju ári þannig að staða ríkissjóðs er hörmuleg og á þeim tíma tel ég að við höfum ekki efni á að setja peninga í þetta.

Þetta kostar offjár og bætir ekki stöðu þeirra sem eru í miklum vanda. Ég get ekki ímyndað mér að 3 milljónir bæti stöðu þeirra sem eru í miklum vanda. Það er þá ekki mikill vandi, hann er miklu stærri. Staða þeirra sem lentu í þessari fasteignabólu batnar ekki neitt. Þeir sem keyptu fyrir 1. nóvember 2004, sérstaklega á árunum í kringum aldamótin, eru í þeirri stöðu að íbúðin hefur hækkað meira en lánið og launin hafa hækkað meira en lánið. Þeir eiga að fá aur frá ríkissjóði. Ég get ekki fallist á það. Hjá þeim er enginn forsendubrestur, þeir eru í gróða og ég get ekki fallist á þetta.

Síðan er staða leigjenda eins og ég gat um. Það er ekkert gert fyrir þá og verður væntanlega ekki mikill afgangur þegar búið er að setja 80 milljarða í þetta. Staða leigjenda verður áfram slæm og ekki lagar þetta stöðu ríkissjóðs því að þetta fer út og inn. Ég hefði gjarnan viljað sjá upphæðina lækka skuldir ríkissjóðs, nota svo sem helminginn í það og hinn helminginn, eins og þegar maður er að kaupa nammi, til að lækka skatta. Ég hefði viljað lækka fjármagnstekjuskatt þannig að það borgi sig að spara. Það gerir það ekki í dag. Ég hefði viljað lækka fleiri skatta sem eru mjög íþyngjandi eins og tryggingagjaldið. Þetta lagar ekki heldur skuldastöðu heimilanna. Jú, jú, menn fá pening en bara ekki rétta fólkið. Þetta leysir ekki vanda þeirra sem eru í vanda og þeir sem eru ekki í vanda fá pening.

Ég get ekki séð að þetta sé nokkur skynsemi og ég mun segja nei við þessu frumvarpi.