143. löggjafarþing — 92. fundur,  8. apr. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[16:15]
Horfa

Edward H. Huijbens (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar til að spyrja hv. þingmann, sem ég þakka jafnframt fyrir góða og innihaldsríka ræðu, um tvennt sem varðar ræðuna. Það er annars vegar að þingmaðurinn gerði nokkuð úr þeirri óvissu sem er um framkvæmdina en í lokamálsgrein 11. gr. er talað um að ráðherra sé heimilt með reglugerð að setja nánari reglur um framkvæmd leiðréttingar samkvæmt þessari grein.

Ég hef nokkrar áhyggjur af valdi ráðherra í þeim efnum og spyr hv. þingmann hvort hún geti útlistað hvernig hún teldi að þetta ætti að vera eða hvort hún telji það eðlilegt sem þarna kemur fram um vald ráðherra í nánari útfærslu á leiðréttingunni.

Í annan stað vildi ég ræða það sem fram hefur komið varðandi hverjir fá hvað í þessari mynd og þá óvissu sem þar er um, enda engin reiknivél fyrirliggjandi. Ég bendi á að áhrif frádráttar sem tíundaðar eru í 7. gr., nokkrir frádrættir sem eru taldir þar upp, eru ekki inni í myndinni eða þeim myndum sem dregnar eru upp í frumvarpinu af áhrifunum. Í rauninni eru þær myndir því ekki sérlega gagnlegar til að átta sig á áhrifunum. Þær gefa ekki raunsanna mynd af þeim vegna þess að við vitum hreinlega ekki hverjir fá hvað þegar upp er staðið, af því að t.d. á eftir að taka tillit til alls frádráttar. Ég hef áhyggjur af því og spyr hv. þingmann í því samhengi: Er meira gagn að greiningu Þorvarðar Tjörva og fleiri hjá Seðlabankanum sem hv. þingmaður vitnaði til til að átta sig á áhrifunum af þessu eða hvað?