143. löggjafarþing — 92. fundur,  8. apr. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[18:25]
Horfa

Margrét Gauja Magnúsdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það hefur samt sem áður verið þannig með þá auknu þjónustu sem sveitarfélögin hafa verið að veita, t.d. með því að veita öllum börnum á öðru aldursári leikskólapláss og þau tóku nú síðast yfir málefni fatlaðra og annað, að gagnrýni sveitarfélaganna hefur oft snúið að því að það er yfirleitt ríkið sem fer létt frá þeim verkefnum. Til að mynda þegar skólar á Íslandi voru einsetnir varð mikil kostnaðaraukning hjá sveitarfélögunum. Ég held því að sveitarfélögin séu alveg í stakk búin til þess að taka við ýmsu héðan, en það virðist samt sem áður ekki vera ekki nógu mikið samráð. Það er eitthvað sem þarf að bæta.

Hvort öll sveitarfélög á landinu séu í frábærum rekstri skal ég ekki segja. Flest þeirra eru með einhverjar skuldir en ég tel, og það er nýjasta niðurstaðan sem ég hef séð, að alla vega flest þeirra, (Forseti hringir.) ef ekki öll, standi undir sínum skuldum.