144. löggjafarþing — 3. fundur,  11. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[15:10]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður stakk upp á því að ég kynnti mér betur breytta aldurssamsetningu þjóðarinnar. Ég er alveg til í það. Ég hefði gott af því að rifja upp það litla sem ég lærði í lýðfræði og mannfræði á sínum tíma, t.d. í Háskóla Íslands. Ég hefði gott af því að rifja upp aftur tillögu sem ég flutti á Alþingi fyrir sjálfsagt að verða 20 árum síðan um að við legðum grunn að því að geta farið að hefja hér svokallaða kynslóðareikninga þannig að við skoðuðum það með langtímamarkmið í huga hvernig kynslóðirnar deila kjörum, því við erum alltaf að hafa áhrif á það með ákvörðunum okkar.

Sem betur fer stóðumst við t.d. eitt áhlaup sem gert var á síðasta kjörtímabili á eina mikilvægustu undirstöðuna í þessu, að sambúð kynslóðanna sé þó til friðs hvað varðar eftirlaunagreiðslur. Sjálfstæðisflokkurinn vildi nefnilega, frú forseti, seilast inn í framtíðartekjur lífeyrissjóðakerfisins og taka út væntar skatttekjur ríkisins fyrir fram til þess að gera sér þetta léttara á meðan á kreppunni stóð. (Gripið fram í.) Það stóðumst við. Þess vegna og þökk sé því að við eigum sjóðsöfnunarkerfi, Íslendingar, þá eru tekjurnar þarna. Eftir því sem fleiri fara á eftirlaun og fá greiddan sinn lífeyri þá vaxa líka tekjur ríkisins og sveitarfélaga og af skattinum sem út kemur. Það er t.d. ein aðferð, býsna góð, til þess að búa í haginn fyrir það þegar aldurssamsetning þjóðarinnar breytist. Ef þetta væri ekki svona, ef við byggðum á hreinu gegnumstreymiskerfi, mættum við heldur betur biðja fyrir okkur þegar útgjöldin mundu hellast yfir okkur í vaxandi mæli ár frá ári án þess að ríkið væri að fá meiri tekjur. Það yrði jafnvel að borga meira af því að þá færi stærri hluti útgjaldanna á almannatryggingakerfið og minna af framfærslu þeirra sem á eftirlaunum væru kæmi úr lífeyrissjóðum.

Þannig að það er ekki hægt að segja að staða Íslands að öllu leyti sé svo slæm í þessu efnum þó mér (Forseti hringir.) þyki bara ágætt að hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson hafi nú loksins uppgötvað þetta og hafi af þessu áhyggjur.