144. löggjafarþing — 3. fundur,  11. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[16:48]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég gat kannski ekki farið í miklu ítarlegri umræðu um fjárlagafrumvarpið því að mér voru aðeins úthlutaðar 5 mínútur, þó ég sitji nú í fjárlaganefnd. En að því seinasta sem hún spurði vil ég bara segja og það sem ég vildi líka sagt hafa í ræðu minni áðan er að auðvitað á fjárlaganefnd eftir að fara í gegnum frumvarpið í heild sinni og hvort sem það snýr að Landbúnaðarháskólanum eða öðrum stofnunum þá verður það að sjálfsögðu tekið til umræðu hvaða úrræði við höfum í þeim efnum og þar fram eftir götunum.

Ég vil nota þetta tækifæri sérstaklega og taka undir það með hv. þm. Kristjáni Möller að við höfum lítið rætt samgöngumál og ég deili áhyggjum hans af framtíð samgöngumála, en það var ekki nákvæmlega það sem þingmaðurinn spurði um.

Það er rétt að ég er fyrrverandi formaður Bændasamtaka Íslands. Núverandi formanni ber ekkert endilega skylda til að vera sammála mér eða ég sammála honum. Ég er ekki sammála þessari gagnrýni Bændasamtakanna á fram komið frumvarp vegna þess að mér finnst, og ég leyfi mér að segja það, að Bændasamtökin séu með henni að lýsa mikilli ábyrgð á vöruverði á Íslandi. Bændur bera ekki einir ábyrgð á vöruverði á Íslandi. Vöruverðið er samsett úr mörgum þáttum. Bændur þurfa líka að kaupa varahluti í vélar. Við erum að lækka vörugjöld á varahlutum svo að ég nefni bara eitt lítið dæmi. Það eru fjölmargir aðrir þættir í búrekstri sem bera vörugjöld sem verðlag mun vafalaust breytast á.

Í þriðja lagi um samkeppnisstöðu landbúnaðarins sem hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir nefndi. Mér finnst miklu frekar vera verkefni að ræða samkeppnisstöðu og tækifæri landbúnaðarins og framtíð hans með beinum hætti við stjórnvöld en að nota virðisaukaskattskerfið til þess að reyna á einhvern hátt að stýra samkeppnishæfni íslensks landbúnaðar.