144. löggjafarþing — 4. fundur,  12. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[14:40]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Hvað varðar barnalögin sjálf heyra þau undir innanríkisráðherra þannig að félags- og húsnæðismálaráðherra er ekki með þau. Ég hef þó tjáð skoðanir mínar á því að ég tel þetta mjög mikilvægt og það var leitt þegar við vorum að endurskoða barnalögin að sá kafli sem sneri að meðlagsgreiðslum var skilinn eftir, þannig að það er frekari vinna eftir hvað það varðar.

Við höfum verið að vinna nýtt frumvarp sem snýr að húsnæðisbótum og þar höfum við sérstaklega hugað að stöðu foreldra þar sem barnið á ekki lögheimili og skoða hvernig væri hægt að koma að einhverju leyti til móts við þá. Það var líka á þarsíðasta ríkisstjórnarfundi sem ég lagði fram minnisblað um að ég hefði í hyggju að skipa nefnd um endurskoðun á barnabótakerfinu og horfa til vinnu sem var farið í árið 2007 um svokallaðar barnatryggingar eða fjölskyldutryggingar. Ég vonast til þess að geta tilkynnt formlega hvernig verður staðið að því.