144. löggjafarþing — 13. fundur,  25. sept. 2014.

hækkun virðisaukaskatts á ferðaþjónustu.

[11:04]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Virðulegur forseti. Aftur þarf að ítreka það við hv. þingmann að hér er um heildarbreytingu á skattkerfinu að ræða. Það er verið að hækka neðra þrep virðisaukaskattskerfisins, það er rétt, og það er verið að lækka efra þrep virðisaukaskattskerfisins um 1,5 prósentustig og verður það lægra en það hefur nokkurn tímann verið. Í því ljósi þarf að skoða þetta.

Ég þarf ekki að fara að í hártoganir við hv. þingmann. Auðvitað er hækkun neðra þrepsins hækkun, það liggur í augum uppi. Markmiðin með aðgerðunum sem farið er í hér eru að einfalda kerfið, minnka muninn milli hærra og lægra þrepsins til þess einmitt að koma í veg fyrir undanskot sem var eitt af markmiðum fyrrverandi ríkisstjórnar með mikilli hækkun þeirra ef mig misminnir ekki.

Punkturinn er þessi: Það er verið að gera heildarbreytingar á skattkerfinu, fækka undanþágum og minnka bilið á milli þrepa. Þær hugmyndir (Forseti hringir.) og þau áform styð ég heils hugar. (Gripið fram í: Hækka …)