144. löggjafarþing — 33. fundur,  17. nóv. 2014.

verkfall lækna.

[15:10]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Verkfall lækna á opinberum heilbrigðisstofnunum hefur nú staðið vikum saman og er þegar farið að valda verulegum erfiðleikum. Það blasir við að biðlistar hafa lengst á Landspítalanum og nýir orðið til þar sem engir biðlistar voru áður. Jafnvel þótt samið yrði við lækna í dag liggur fyrir að það mundi taka langan tíma, marga mánuði, að vinna upp tjónið sem orðið er. Áfram heldur verkfall og aldrað fólk, sjúkir, á í vaxandi vandræðum með að fá úrlausn sinna mála. Kostnaðurinn hleðst upp á Landspítalanum, því að aðrir starfsmenn eru auðvitað ekkert í verkfalli, en mikill hluti þeirra starfs hangir á því að læknar séu við störf á spítalanum.

Ég vil þess vegna spyrja hæstv. forsætisráðherra: Hversu lengi getur þetta gengið svona áfram? Hversu lengi er hægt að halda áfram án þess að samið sé í þessari deilu ef það á ekki að valda varanlegu tjóni fyrir samfélagið?

Nú líður brátt að áramótum. Hættan er auðvitað sú að læknar gefist einfaldlega upp, hverfi til starfa í öðrum löndum. Hversu lengi ætlar hæstv. forsætisráðherra að láta þessa deilu halda áfram með þessum hætti? Hvenær hyggst hann ganga til alvörusamninga við lækna? Samningafundir eru mjög strjálir í deilunni. Það er ekki hægt að segja að það séu alvörusamningaviðræður í gangi. Hvenær hyggst forsætisráðherra ljúka þessum málum með samningum?