144. löggjafarþing — 44. fundur,  9. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[23:35]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég þakka spurninguna. Maður verður auðvitað að sjá hvort einhver alvara er að baki, en það hefur verið óþægilegt að fylgjast með vandræðagangi ríkisstjórnarinnar í kringum ákvörðunina um hvort þessar upplýsingar verði keyptar eða ekki.

Aðeins aftur að jafnvæginu og því að mæta fólki á almennan hátt. Stór hluti af árangri Íslands í glímunni við hrunið, stór hluti af því að við fórum ekki neðar í dýfu í hrunin var því að þakka að við fengum tilstyrk Alþjóðagjaldeyrissjóðsins til þess að halda uppi ríkisútgjöldum þótt við hefðum ekki lánstraust. Það gerði okkur kleift að skerða ekki bætur með þeim hætti sem við hefðum ella þurft að gera. Það var stefnubreyting af hálfu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins frá því sem var á árum áður, vegna þess að þeir höfðu lært af reynslunni og séð að með því að skerða bætur þeirra sem ekkert höfðu annað juku þeir á efnahagsvandann, þegar þeir voru að taka peninga sem var örugglega eytt ella út úr hagkerfinu. Það var mikilvægasta aðferðin sem við fórum, sem var nýlunda í viðureign við efnahagslegan samdrátt af þeim toga sem við vorum að fást við frá fyrri dæmum, það var að halda uppi ríkisútgjöldunum af þessum toga og verja almennan tekjugrunn fólks á bótum, atvinnuleysisbótum og lífeyrisþega.

Af þessu mætti ríkisstjórnin læra að það skiptir máli að dreifa peningum vítt og að fjöldanum líði vel. Það á jafnt við um fjöldann úti í hinum stóra heimi (Forseti hringir.) og hér á Íslandi.