144. löggjafarþing — 49. fundur,  15. des. 2014.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2015.

3. mál
[23:55]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (andsvar):

Forseti. Það má segja að dramatíkin sem hér oft hrýtur af vörum mínum sé afar „innspíreruð“ af hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni, sem oft vill vera mjög fundvís á góðar samlíkingar í ræðum sínum sem skapa oft mikla dramatík hér í þingsal. En komandi að málinu, ég er sammála því að kannski er þetta ekki „systematísk“ aðferðafræði við að skapa stéttaskiptingu en aðferðafræðin gerir slíkt, þannig að á endanum hlýtur niðurstaðan að vera sú að þær áherslur og sú forgangsröðun auki misskiptingu hér á landi. Og það hefur verið þannig, alla vega samkvæmt sögubókum, að talað er um helmingaskiptingu hérlendis sem er eignuð þessum tveimur flokkum sem nú eru við völd, að þeir hafi helmingaskipt á milli sín þegar við fengum loksins sjálfstæði. Ég var ekki á staðnum þannig að ég get ekki sannreynt það en það hefur verið það sem lesa má í mörgum söguskýringum.

Ég hef miklar áhyggjur af því að þær undirstöður, ég ætla að fara betur og ítarlegar í það af hverju ég hef áhyggjur af heilbrigðiskerfinu. Ég hef fylgst með hvað hefur gerst eftir Alþjóðagjaldeyrissjóðsprógrömm víðs vegar um heim. Ekki var farið eins skarpt í niðurskurðinn en nú er eiginlega lokahnykkurinn að koma út af því að það var orðið svo viðkvæmt fyrir í góðærinu, því að ekki er eins og það sé eitthvað nýtt af nálinni að hér sé um (Forseti hringir.) þrengingar að ræða í heilbrigðiskerfinu.