144. löggjafarþing — 56. fundur,  26. jan. 2015.

lærdómur af lekamálinu.

[15:32]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir uppákomuna og skemmtunina sem hann veitti okkur með svari sínu.

Það getur vel verið að forsendur spurningar minnar hafi verið rangar en forsendurnar voru viðtal við hæstv. forsætisráðherra, skráð viðtöl á tveimur fjölmiðlum. Ég vitnaði beinlínis til hans orða, að þjóðfélagsumræðan hafi einkennst meira af hatri en rökræðu, hafi verið skaðleg og að það liggi ljóst fyrir að hæstv. fyrrverandi dómsmálaráðherra hafi hvergi komið að því máli sem hún var sökuð um.

Ég átta mig engan veginn á því, það er erfitt að svara vitleysu, hvernig á að svara þeim yfirlýsingum sem komu fram áðan frá hæstv. forsætisráðherra um að það liggi fyrir að hæstv. fyrrverandi dómsmálaráðherra hafi ekki komið neitt að þessu máli þegar öll gögn málsins liggja fyrir.

Kannski er sá lærdómur sem við eigum að draga af þessu máli — hæstv. forsætisráðherra, ég, þjóðin — að trúa ekki alltaf á samsæriskenningar þó að þær hljómi vel.