144. löggjafarþing — 56. fundur,  26. jan. 2015.

umönnunargreiðslur.

409. mál
[18:17]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka kærlega fyrir þessa fyrirspurn og þakka þingmanninum líka fyrir að halda þessu vakandi hér í þinginu. Ég treysti á að hún muni áfram halda okkur við efnið.

Það skal bara viðurkennast hér að íslensk stjórnsýsla er lítil. Þó að okkur finnist ráðuneytin vera stór, það séu 100 manns sem vinni þar, þá eru kannski tveir til þrír starfsmenn að vinna akkúrat í þessum málaflokki. Þegar kemur að því að aðstoða nefnd við að semja lagafrumvörp, þá værum við að tala um að þeir örfáu starfsmenn kæmu að því.

Við vonumst til að hægt verði að vinna þetta hratt. Við erum hins vegar í vinnu sem snýr að heildarendurskoðun á almannatryggingakerfinu. Það eru þau lagafrumvörp sem við höfum verið að leggja áherslu á að koma með sem fyrst inn í þingið. Við erum líka með ákveðnar tillögur sem snúa að bifreiðamálum og greiðslum frá Tryggingastofnun og Sjúkratryggingum. Við erum með tillögur tilbúnar þar sem við erum að vinna úr. Að sjálfsögðu verður horft til þeirrar vinnu sem er fyrir í þessari vinnu.

Þarna er um einstaklinga að ræða, sem búið er að tilnefna í þennan starfshóp, sem þekkja þetta mjög vel og eiga að geta unnið þetta hratt. En að sama skapi mun það síðan taka tíma að vinna frumvörpin. Það er annað sem maður hefur líka áttað sig betur á, þ.e. að töluvert flóknara er að vinna lagafrumvörp í ráðuneyti en þegar maður var stjórnarandstöðuþingmaður hér á þingi.