144. löggjafarþing — 65. fundur,  16. feb. 2015.

skipan í stjórnir, ráð og nefndir á vegum ríkisins.

513. mál
[15:38]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég legg þessa fyrirspurn ekki fram að tilefnislausu. Nýverið, 28. janúar sl., var það kynnt á vef menntamálaráðuneytisins að skipað hefði verið í þjóðleikhúsráð. Í framhaldi af því vakti Jafnréttisstofa athygli á því að þar var verið að skipa fjóra karla og eina konu, það var samsetningin á ráðinu. Það hafði reyndar líka gerst aðeins fyrr.

Mér sýnist síðan á vef menntamálaráðuneytisins — þó að kannski mætti gæta að því að hafa nýjustu upplýsingar þar, vegna þess að ekki er búið að uppfæra stjórnarskipanina þar — að fjórar konur séu hins vegar varamenn, ef skipanin er rétt samkvæmt þeirri vefsíðu, og einn karl.

Mig langar að ræða þetta við hæstv. ráðherra. Við erum með lög um jafna stöðu karla og kvenna. Í 15. gr. þeirra segir að við skipun í nefndir, ráð og stjórnir á vegum ríkis og sveitarfélaga skuli þess gætt að hlutfall kynjanna sé sem jafnast og ekki minna en 40% þegar um fleiri en þrjá fulltrúa er að ræða. Í 2. mgr. sömu greinar segir að þegar tilnefnt sé í nefndir, ráð og stjórnir á vegum ríkis og sveitarfélaga skuli tilnefna bæði karl og konu.

Virðulegi forseti. Mér finnst skjóta skökku við — þegar við erum með svona löggjöf og menn segjast ætla að fylgja henni — að við séum hér á árinu 2015 að fá þær fréttir að verið sé að skipa fjóra karla og eina konu. Ég gef ekkert fyrir skýringar sem fela í sér að vegna þess að það séu tilnefningaraðilar utan úr bæ þá sé þetta snúnara, vegna þess að þeir tilnefningaraðilar virðast samt geta sett konur í varamannssæti. Það er líka þannig að mönnum ber, eins og fram kemur í þessari grein, að skipa karl og konu og ráðherrann raðar síðan saman þannig að lögum sé fylgt um jafna stöðu karla og kvenna, þessari 15. gr., um að jafnt hlutfall karla og kvenna sé í nefndum, stjórnum og ráðum.

Ég hef sjálf verið í þeim sporum sem ráðherra að neita að taka við tilnefningu frá tilnefningaraðilum nema það komi karl og kona til að lögin sé uppfyllt. Þannig á að gera þetta, virðulegi forseti. Mig langar að heyra í hæstv. ráðherra, sem fer með málaflokkinn, hvernig hún hyggist bregðast við þessu, að samráðherrar hennar í ríkisstjórn séu að brjóta jafnréttislög á þennan hátt.