144. löggjafarþing — 87. fundur,  13. apr. 2015.

svör við fyrirspurn.

[16:34]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Það er alveg á hreinu að mér þykir mjög leitt ef hv. þm. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir er ergileg. Hún er hins vegar með skemmtilegri konum almennt þegar hún er ekki ergileg þannig að ég vona að ég geti kannski aðeins skýrt málið hér. (SII: Ég get ekki setið undir þessu, forseti. Forseti. Ég get ekki setið …)

(Forseti (ÞorS): Forseti biður um hljóð í salnum.)

Ef ég gæti bara aðeins reynt að skýra mál mitt af því að það er það sem þessi hv. þingmaður var að óska hér eftir, þegar frumvörpin fara fyrir ríkisstjórn mun koma í ljós hvort þau njóta stuðnings eða ekki. Ég hef hins vegar ekki fundið fyrir neinu öðru í samtölum við samráðherra mína, eins og ég sagði, en því að húsnæðismálin njóti stuðnings og það sé skilningur á því hversu mikilvæg þau eru.

Ég vil líka taka fram að ég hef heldur ekki fundið fyrir því á nokkurn máta að fjármálaráðherra, eins og kom til dæmis fram í status hjá fyrrverandi fjármálaráðherra, hafi haft fyrir venju að stoppa mál eins og hv. þm. Oddný Harðardóttir hélt fram í nýlegum Facebook-status. Það hefur verið mikið í gangi í fjármálaráðuneytinu. Ég veit ekki betur en að menn séu núna (Forseti hringir.) eftir páskafrí á fullu að vinna í kostnaðarmati á þessum stóru og mikilvægu málum.