144. löggjafarþing — 108. fundur,  19. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[17:04]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir spurninguna. Eitt af því sem fær mig til að svitna af ugg þegar ég tala um þessi mál er að það er raunveruleg hætta á, sérstaklega þegar þessir stjórnmálaflokkar ráða á stjórnarheimilinu, að allt sem á eftir að virkja á Íslandi með einhverju móti, kannski ekki Gullfoss eða Geysir, verði bara virkjað. Öll þessi orka, það yrði ekki svo mikil orka eftir, mundi nægja til að knýja kannski tvö álver og þá væri þetta bara komið. Ég óttast stundum þessa framtíðarsýn. Ég get vel ímynda mér að ungt fólk á Suðurlandi óttist þetta líka, að allar sprænur og hverir verði virkjaðir til að ná þessum markmiðum, kannski tveimur álverum, og orkan seld til (Forseti hringir.) þeirra með einhverjum verulegum afslætti. (Forseti hringir.) Þetta væri hryllilegt, en þetta er held ég það sem við erum að glíma við og (Forseti hringir.) reyna að koma í veg fyrir að gerist.