144. löggjafarþing — 109. fundur,  20. maí 2015.

dagskrá næsta fundar.

[10:35]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ræða hv. þm. Höskuldar Þórhallssonar hérna fyrr undirstrikar í raun og veru ástandið hér í þinginu. Hann kemur upp í pontu og bendir okkur á að það sé hægt að greiða atkvæði um þetta, en hann er afskaplega viss í sinni sök um það hver niðurstaðan verður, eðlilega, vegna þess að við vitum hvernig þetta fer. Nú er ég ekki flutningsmaður að þessari dagskrártillögu, vissulega styð ég hana, en ég lít svo á að það sé óhugsandi að hún fari í gegn vegna þess að við vitum hvernig Alþingi vinnur. Þetta er fyrst og fremst sönnun á því að minni hlutinn er fullkomlega reiðubúinn til þess að ræða þau mál sem eru aðkallandi og mikilvæg og bráðnauðsynleg hér og nú fyrir samfélagið. Eins og venjulega mun meiri hlutinn þó fella tillöguna, vænti ég — þetta er spádómur, ég ætla að leyfa mér þetta, virðulegi forseti — ekki vegna þess að það sé lýðræðislegur vilji þjóðarinnar, ekki vegna þess að það sé hluti af einhverju faglegu ferli, nei, heldur vegna þess eins að hann getur það og hann má það og þá ætlar hann, aftur og aftur og aftur.