144. löggjafarþing — 136. fundur,  24. júní 2015.

störf þingsins.

[15:17]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ímyndum okkur fyrirtæki sem býr yfir fjármagni til að hafa nákvæmlega 63 starfsmenn í vinnu. Ímyndum okkur síðan að sex deildir séu í þessu fyrirtæki, í tveimur þeirra séu 19 manns, í einni séu sjö, í einni séu sex, einni níu og svo getur maður kannski vænst þess að tölvudeildin hafi sirka þrjá menn. Ef við stillum þessu upp þannig að til að fjölga í sinni deild þurfi hver yfirmaður að fá einhvern rekinn úr annarri deild, það þurfi að gerast með því að tala um viðkomandi aðila, hvernig mundi maður halda að svona fyrirtæki virkaði?

Það sem ég er að reyna að koma að hérna, virðulegi forseti, er að þegar fólk heldur að hið háa Alþingi geti einhvern tímann unnið eftir einhvers konar faglegum stöðlum á sambærilegan hátt og maður rekur fyrirtæki tel ég það rangt. Þetta er pólitísk stofnun sem þarf að lifa við það að hér eru pólitískir ferlar. Ég nefni þetta vegna þess að sá ágreiningur sem við tölum réttilega mikið um hér vegna þess að hann er djúpstæður, ríkur og langvarandi verðum við að líta til pólitískra lausna. Ég vil meina enn og aftur, virðulegi forseti, að pólitískasta rétta lausnin á þeim pólitíska vanda sem hér er til staðar sé meira lýðræði. Það er ekki andrúmsloftið hér á bæ sem þarf að batna, ég mundi meira að segja segja að það væru varla vinnubrögðin vegna þess að á meðan staðan er eins og hún er núna, meðan reglurnar eru eins og þær eru, verður alltaf togstreita, jafnvel ómálefnaleg togstreita, þegar það er eina leiðin til þess að berja hlutina í gegn, ýmist með frekju eða leiðindum af öðru tagi. Það verður að gefa þessari þjóð sem á þetta háa Alþingi færi og réttinn á að grípa í taumana þannig að við sem hér störfum höfum hagsmuni af því að tala vel um og við hvert annað.

Að lokum legg ég til að fundir fastanefnda Alþingis verði að jafnaði opnir.