145. löggjafarþing — 8. fundur,  17. sept. 2015.

ríkisendurskoðandi og endurskoðun ríkisreikninga.

112. mál
[12:29]
Horfa

Flm. (Einar K. Guðfinnsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla nú ekki að dvelja lengur við þá spurningu um hvort ríkisendurskoðandi eigi að vera löggiltur endurskoðandi eða ekki, þarna eru bara ólík viðhorf uppi og allt ósköp heilbrigt í sambandi við það.

Hv. þingmaður vék að öðrum atriðum, m.a. niðurstöðu forsætisnefndar. Við fórum yfir frumvarpið og lúslásum sömuleiðis athugasemdirnar. Þær lutu annars vegar að stærri hlutum, eins og spurningunni um löggildinguna og hvernig ráða ætti ríkisendurskoðanda og annað slíkt. Þar höfðum við skoðun sem við fylgdum þá eftir. Það var ekkert í þeim ábendingum sem fram komu sem leiddi til þess að við skiptum um skoðun í þeim efnum.

Síðan eru ýmis önnur atriði eins og til dæmis þau sem hv. þingmaður nefndi varðandi kostnaðinn, sem lýtur að endurskoðun á fjárhag Alþingis, atriði sem lúta að lögum um opinber fjármál, sem er löggjöf sem er ekki orðin að lögum núna. Niðurstaða okkar var einfaldlega sú að við mundum ekki hvika frá hinum stærri atriðum og teldum skynsamlegast að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, sem hefði þetta mál með höndum og fengi þetta mál í framhaldi af þessari umræðu, gæti þá haldið áfram að vinna þau mál í stað þess að forsætisnefnd væri að reyna með einhverjum tvíverknaði að fara í þá vinnu.

Við lítum þannig á að það sé verkefni sem stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hafi með höndum að vinna úr.