145. löggjafarþing — 22. fundur,  19. okt. 2015.

afsláttur af stöðugleikaskatti.

[15:11]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Það er auðvitað þessi upptalning hæstv. ráðherra sem vekur okkur ugg, m.a. að hægt sé að komast undan greiðslu skatts upp á 39% með því að lengja í einhverri hengingaról. Færðar hafa verið fram ítarlegar athugasemdir, t.d. af hálfu Indefence, um að það eigi eftir að greina til fulls greiðslujafnaðaráhrifin á þjóðarbúið, eða langt fram í tímann. Það er auðvitað varhugavert ef sleppa á erlendum kröfuhöfum við greiðslu skatts, sem menn telja að geti staðist fullkomlega í dag, út á það að minni framlög þeirra séu mögulega nægjanleg en felist fyrst og fremst í lengingum í hengingaról frekar en í alvörulausn vandans.

Ég hlýt þess vegna að spyrja hæstv. fjármálaráðherra aftur: Ef það er bjargföst skoðun hans að stöðugleikaframlögin séu jafngild stöðugleikaskattinum og skili sama árangri, af hverju eigum við að vera að taka við stöðugleikaframlögunum upp á helming (Forseti hringir.) fjárhæðarinnar miðað við það sem skatturinn gefur? Er þá ekki miklu tryggara og réttara að láta skattinn falla á búin?