145. löggjafarþing — 26. fundur,  2. nóv. 2015.

framkvæmd laga um verndarsvæði í byggð.

[15:43]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég þakka þessa fyrirspurn. Það er ágætt að fá tækifæri til að fara aðeins yfir þetta mál. Í fyrsta lagi er það mikill misskilningur, sem kom fram í fyrri fyrirspurn og aftur nú — og kannski við þann sem hér stendur að sakast að hafa ekki leiðrétt það nógu vel í fyrra svari — að friðun hafnargarðsins við Tryggvagötu hafi eitthvað með lög um verndarsvæði í byggð að gera. Þetta eru algerlega óskyldir hlutir. Sú friðun sem þar fer fram er gerð á grundvelli annarra laga sem hafa legið fyrir miklu lengur svo að það eru óskyld mál.

Hvað varðar friðlýsinguna sjálfa — þegar umhverfisráðherra staðfesti tillögu Minjastofnunar þá er það gert á grundvelli þessara laga og á grundvelli þessarar tillögu. Og hvað sem líður tímasetningu þess — hvort sem það var einum degi of seint eða ekki, sem það var reyndar ekki, skiptir engu máli. Í versta falli hefði það þýtt að garðurinn hefði verið ófriðlýstur í einn dag. Næsta dag var hann svo friðlýstur af ráðherra. Það er ekki svo að ef ráðherra friðlýsir ekki innan sex vikna frá tillögu Minjastofnunar þá sé aldrei nokkurn tíma í framtíðinni hægt að friðlýsa. Það leið þá einn sólarhringur í mesta lagi, eða hálfur sólarhringur jafnvel, þó að menn teldu að þetta hefði verið of seint, þar sem garðurinn var ófriðlýstur.

Jæja. Jafnvel þó að ráðherra hefði ekki friðlýst garðinn þá var hann engu að síður friðaður. Þetta er nefnilega hvor sinn hluturinn. Mér finnst það ruglingslegt fyrirkomulag að tala bæði um friðun og friðlýsingu því að það er í raun og veru sami hluturinn. Garðurinn var friðaður vegna aldurs, en svo kom friðlýsing ráðherra þar ofan á svona eins og til að hnykkja á því sem þegar lá að mestu leyti fyrir.