145. löggjafarþing — 27. fundur,  3. nóv. 2015.

tekjuskattur o.fl.

172. mál
[15:19]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er kostulegt að hlusta á málflutning formanns Vinstri grænna. Hér er mikið talað um skilningsleysi og talað um að það hafi verið lítil samráð við stjórnarandstöðuna o.s.frv. Hér er meira að segja talað um að það hafi ekki verið fengnir óháðir aðilar til að meta bankana. Ég vísa þessu öllu til föðurhúsanna. Við vitum alveg hvernig þetta var hér þegar hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, þáverandi fjármálaráðherra, gaf kröfuhöfunum bankana á einni nóttu. Hér er verið að vinda ofan af því máli. Hér er verið að skila ríkisframlaginu sem hv. þingmaður fór með inn í bankana, svo að það sé sagt.

Þessi aðgerð gengur fyrst og fremst út á að verja lífskjör almennings í landinu, sem ég tel að hafi ekki verið gert á síðasta kjörtímabili.

Ég spyr þingmanninn hvort hún vilji fara yfir það hér með þingheimi hvernig farið er með Landsbankabréfið svokallaða í þessum samningum, (Forseti hringir.) upp á 230 milljarða, og skilyrta skuldabréfið upp á 92 milljarða, sem var skítabix fyrri ríkisstjórnar. (Forseti hringir.) Þetta var hluti af Icesave-samkomulaginu. Hvernig var farið með það í þessum samningum?