145. löggjafarþing — 27. fundur,  3. nóv. 2015.

tekjuskattur o.fl.

172. mál
[16:06]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegur forseti. Í grunninn er það mál sem við ræðum hér líklega án fordæma. Það var ekki bara einn banki sem fór á hausinn haustið 2008 heldur fjármálakerfi heillar þjóðar. Núna erum við að glíma við það að gera upp bú, ekki bara eins banka heldur sjö fjármálastofnana, þar af þriggja sem samanlagt fóru á hausinn í einu stærsta gjaldþroti mannkynssögunnar. Það kemur mér því ekkert á óvart að grípa þurfi til ýmissa lagasetninga til að reyna að leysa þetta vandamál. Það kemur mér ekkert sérstaklega á óvart og ég bjóst alveg við því að það kæmi núna á haustþingi frumvarp þar sem þyrfti að sníða af ýmsa ágalla í lögum sem komið hefur í ljós að eru hindranir í vegi gömlu búanna til þess að geta gert nauðasamninga. Frumvarpið sem við ræðum snýst í stuttu máli um að reyna að haga málum algerlega þannig í þessu fordæmalausa viðfangsefni og stóra úrlausnarefni að þessi sjö slitabú geti gert nauðasamninga.

Það sem er sérstakt við þessa nauðasamninga er ekki bara umfang vandans heldur líka að þetta eru í raun og veru skuldaskil. Þetta eru uppgjör búanna. Þetta eru ekki nauðasamningar í þeim skilningi að þessi fyrirtæki muni halda áfram rekstri, eins og nauðasamningar snúast almennt um, þ.e. fyrirtæki gera nauðasamninga og svo heldur fyrirtæki áfram í breyttri mynd. Það stendur ekki til að reka þessar fjármálastofnanir áfram. Það á að reyna að ljúka slitum á þeim með þessu formi nauðasamninga, alla vega er markmiðið með þessu frumvarpi að gera það kleift. Bara af þeim sökum þarf að grípa til ýmissa sérúrræða í lagasetningu. Það er reynt að gera það með þeim hætti að það ógni ekki jafnræðisreglu og allir séu settir undir sama hatt. Þetta er flókið.

Ég er á nefndaráliti meiri hlutans. Ég veit að þetta er flókið frumvarp og tæknilegt en tel mig hafa nógu mikinn skilning á innihaldi þess til að geta samþykkt það. Þetta birtist mér sem nauðsynlegar ráðstafanir til að geta gert búunum kleift að gera nauðasamninga og leggja þá fyrir kröfuhafafund til samþykktar eða synjunar fyrir áramót. Svo fá dómstólar samkvæmt tillögu okkar í meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar aukinn frest til að staðfesta þessa nauðasamninga verði þeir lagðir fram. Ég stend að þessu.

Umræðan hér í dag hefur snúist dálítið um hvernig standi til að gera upp gömlu búin og sitt sýnist hverjum, heyrist mér. Þá ætla ég í restinni af þessari ræðu að segja hvernig málið blasir við mér. Mér hafa verið kynnt stöðugleikaframlögin, drög að nauðasamningum gömlu búanna, eins og þjóðinni og meðlimum efnahags- og viðskiptanefndar og þingmönnum, og mér hefur verið sagt að Seðlabankinn telji að þessir samningar uppfylli stöðugleikaskilyrðin. Ég fagna þeirri niðurstöðu. Ég hef alltaf talað fyrir því og við í Bjartri framtíð að það verði reynt að haga málum þannig að gerðir séu samningar um hvernig búunum verði slitið. Ég auglýsti eftir því í fyrirspurnum á þinginu og hef stundum fengið undarleg svör. Mér hefur heyrst margir tala á þeim nótum að þetta sé skynsamlegt.

Ég upplifi núna að við séum að horfa á niðurstöðu sem er ekki bara afrakstur vinnu núverandi ríkisstjórnar undanfarna mánuði eða eitthvað slíkt, eitthvað sem núverandi ríkisstjórn dregur upp úr hattinum. Ég lít svo á að þetta sé niðurstaða vinnu, allt frá hruni, mjög margra stjórnmálamanna, flokka og embættismanna. Það eru nokkrar mjög mikilvægar leiðarvörður á þessum leiðangri sem stundum hefur verið þverpólitísk samstaða um og stundum ekki. Byrjum á neyðarlögunum. Þau eru mjög mikilvæg í þessu og gera þetta kleift. Það var mjög mikilvæg ákvörðun að setja búin undir gjaldeyrishöft, um það ríkti ekki eining, en sú ákvörðun er forsenda þess að þetta er mögulegt. Tíminn hefur unnið með Íslendingum í þessu máli. Það hefur smám saman orðið ljóst hve umfangsmikill vandinn er. Smám saman hefur öllum orðið ljóst, þar á meðal kröfuhöfum gömlu búanna, að þessar fjárhæðir í íslenskum krónum og íslenskar eigur gætu ekki farið út úr íslenska hagkerfinu án þess að valda stórbrotinni kjaraskerðingu á Íslandi. Það hefur tekist að sannfæra kröfuhafana um að það gengur ekki og verður aldrei hægt.

Ég horfi núna á nauðasamningsdrög sem fela í sér að allar íslenskar eigur verða eftir á Íslandi — allar — og meira að segja kemur inn gjaldeyrir upp á 40 milljarða. Áhrifin á greiðslujöfnuð verða engin. Það er mat Seðlabankans. Nú vil ég minna á að þegar átti að gera upp gömlu búin, og á að gera, lá fyrir að koma í veg fyrir að uppgjör gömlu búanna mundi auka á greiðslujafnaðarvanda Íslendinga. Það er markmiðið. Mér sýnist í drögum að þessum nauðasamningum að það hafi tekist. Annars verð ég að auglýsa eftir þeim sjónarmiðum og rökum sem benda til þess að ég sé eitthvað að misskilja þetta. Eru einhverjar frekari íslenskar eigur sem þrotabúin geta gefið eftir? Um það hefur málið alltaf snúist, íslensku eigurnar.

Svo ber náttúrlega að hafa í huga að gömlu búin, þessi sjö, eru einkafyrirtæki. Þau verða gerð upp sem einkafyrirtæki. Mér finnst ekki vera hlutverk íslenskra stjórnvalda að vasast í því mikið frekar. Þau skipta upp sínum erlendu eignum samkvæmt nauðasamningum sem kröfuhafar búanna samþykkja sín á milli. Þau skipti á erlendum eignum hafa ekki áhrif á greiðslujafnaðarvanda Íslendinga.

Mér finnst gæta ákveðins misskilnings í þessari umræðu allri þegar rætt er um virði íslensku eignanna og það gert að ákveðnu lykilatriði. Hvers virði er Íslandsbanki? Hefur farið fram verðmat á Íslandsbanka? Það skiptir ekki máli á þessari stundu. Það sem skiptir máli er að íslensku eignirnar eru, svo að ég sletti, „njútralíseraðar“. Þær eru ekki að fara úr íslensku hagkerfi. Þær fara undir væng ríkisvaldsins með öllum þeim krefjandi verkefnum sem það felur vissulega í sér. Þær munu ekki streyma út úr hagkerfinu. Það er lykilatriði. Þetta er markmiðið sem átti að ná. Hvers virði eigurnar eru á einfaldlega eftir að koma í ljós. Vonandi verða þær mikils virði. Ef Íslandsbanki er einskis virði hefði hann heldur engin áhrif haft á greiðslujafnaðarvandann. Út af fyrir sig er þessi spurning ekki mikilvæg á þessum tímapunkti. Mér finnst í rauninni bæði þingmenn í stjórnarandstöðunni og í ríkisstjórninni hafa gert of mikið úr einhverju krónutölumati á virði eignanna. Aðalatriðið er að þær munu ekki streyma út úr hagkerfinu með tilheyrandi áhrifum á lífskjör almennings.

Ég upplifi það þannig að það hafi algerlega verið þverpólitísk samstaða um það á þingi að reyna að haga uppgjörum gömlu búanna þannig að þau mundu ekki hafa áhrif á greiðslujöfnuð. Mér fannst líka alger samhljómur um það í umræðunni í sumar þegar við samþykktum tvö frumvörp, annars vegar um stöðugleikaskatt og hins vegar um nauðasamningana, að þetta væri ekki tekjuöflunaraðgerð. Það kemur mér því smá á óvart núna að heyra hve margir þingmenn tala um virði eignanna og muninn sem verði mögulega á stöðugleikaframlögunum og stöðugleikaskattinum og að kröfuhafar séu að komast undan með einhverjum afslætti og ríkið sé að gefa eftir einhverjar tekjur í þessu spili. Þetta rímar ekki við þann þverpólitíska samhljóm sem ég heyrði hér í sumar þegar allir virtust átta sig á því að þetta væru ekki tekjuöflunaraðgerðir heldur í eðli sínu aðgerðir til að leysa greiðslujafnaðarvanda þjóðarinnar. Mér finnst við þurfa að ræða það.

Það liggur fyrir að líklegt er að sú niðurstaða sem felst í drögum að nauðasamningum leysi greiðslujafnaðarvandann. Það er aðalatriðið. Svo bera menn þetta saman, stöðugleikaskattinn og stöðugleikaframlögin. Mér finnst ég vera alveg samkvæmur sjálfum mér þegar ég segi það og hef alltaf talað fyrir því að samningaleiðin sé betri. Mér finnst leið nauðasamninga fela í sér betri niðurstöðu fyrir Íslendinga og betri niðurstöðu fyrir kröfuhafa að því leyti til að málið verður klárað. Það verður ekki óvissa um þessi mál í framhaldinu innan dómskerfisins. Mér finnst það vera gott. Ég upplifði alltaf að stöðugleikaskatturinn væri settur fram sem eins konar svipa til að hagstæðir nauðasamningar næðust þannig að ef menn næðu ekki nauðasamningum fyrir áramót þá biði stöðugleikaskatturinn sem var miðaður við stærsta vanda eins bús og sú viðmiðun síðan smurð yfir á öll önnur bú. Ég upplifði stöðugleikaskattinn sem hvata til að ná samningum. Mér finnst það hafa tekist og ég fagnaði því í sumar að þessi dúett var settur fram, þ.e. skattur og möguleiki á nauðasamningum. Fram að því hafði bara verið talað um skatt og mér fannst það ekki standast, mér fannst að það þyrfti líka að opna þessa leið að nauðasamningum og mér finnst það hafa tekist. Mér finnst niðurstaðan ekki vera bara eitthvað sem ríkisstjórnin er að kokka upp núna heldur niðurstaða margra ára vinnu. Mér finnst margir geta eignað sér heiðurinn af þessari niðurstöðu, satt að segja.

Er skatturinn betri? Menn segja að hann sé gagnsærri, ein upphæð komi inn, en mér finnst hann ekki betri vegna þess að hann skilur eigurnar eftir í búunum. Allar eigurnar verða eftir í búunum. Þær geta aukist að virði, það er ekkert ólíklegt. Þá gæti skapast vandi aftur. Við sæjum það ekkert fyrir hvenær búunum yrði slitið. Eftir sem áður þyrfti að selja tvo banka og jafnvel er líklegra að það yrði brunaútsala vegna þess að kröfuhafarnir mundu vilja losa sig við þessa banka. Ég held að það sé betra að ríkisvaldið annist bankasöluna en búin sjálf, a.m.k. sé ég bæði kosti og galla við hvort sem er. Í öllu falli fela stöðugleikaframlögin í sér að allar eigurnar sem gætu haft áhrif á greiðslujöfnuð verða í umsjón ríkisvaldsins, þær fara inn í Seðlabanka Íslands og við getum haft stjórn á atburðarásinni. Það finnst mér mjög mikilvægt, það finnst mér betri niðurstaða en skatturinn. Þannig blasir þetta við mér.

Þó að ég fagni þessari niðurstöðu og eigi erfitt með að sjá hvernig nauðasamningar séu betri fyrir alla aðila og hafi minni áhrif á greiðslujafnaðarvanda Íslendinga þá verður auðvitað að hafa í huga að veröldin verður ekki vandamálalaus í kjölfarið. Þótt þessi samningar verði samþykktir og staðfestir fyrir dómstólum blasa auðvitað við Íslendingum mjög stór úrlausnarefni. Eitt felst til dæmis í því að höndla með allar þær eignir sem koma til ríkisins, þar af verða tveir bankar komnir í ríkiseigu. Mér finnst þurfa mjög djúpa og viðamikla umræðu um það. Hún á eftir að fara fram. Hvernig á að selja þá? Á að selja þá? Hvernig á bankakerfi og fjármálakerfi Íslendinga að líta út? Hvernig viljum við koma í veg fyrir að sagan endurtaki sig? Hvernig viljum við standa betur að sölu, ef svo verður, þessara fjármálastofnana en þeirra sem við seldum upp úr aldamótum? Þetta eru stórar spurningar. Það er okkar að glíma við þetta og mjög mikilvægt að í meðhöndlun allra þessara eigna, stórra og smárra, ríki gagnsæi og fagmennska. Þetta getur orðið gróðrarstía spillingar, allar þessar eigur sem koma undir ríkisvænginn, allar þessar kröfur, hlutabréf, lausafé, allt þetta. Þetta þarf að gera allt saman þannig að það sé uppi á borðum.

Þetta getur auðvitað haft gríðarleg þensluáhrif á þjóðarbúskapinn. Það koma eignir til ríkissjóðs sem eru mikils virði. Það kemur beinlínis peningur inn í ríkissjóð. Það þarf að vera alveg skýrt að þessum fjármunum verði varið af ábyrgð og aga og að ekki sé verið að kynda upp einhverjar væntingar. Mér finnst glærusýningarnar ekki hafa verið til þess fallnar hingað til að dempa væntingar, með öllum þessum ævintýralegu fjármunum sem fara að streyma til okkar. Mér finnst það vera svolítið staðfesting á því í mínum huga að flokkarnir tveir sem eru í ríkisstjórn eru ekki góðir í því að halda aftur af væntingum. Það þarf að gera á þessum tímapunkti. Ef 500 milljarðar eru að koma inn í ríkissjóð þá þarf að vera alveg skýrt að þeim þarf að verja á þann hátt að það skapi ekki þenslu. Við þurfum að hugsa til langs tíma. Við þurfum að hugsa um langtímauppbyggingu innviða fyrst og fremst. Við þurfum að borga niður skuldir hins opinbera. Það er af aga og ábyrgð sem við þurfum að fara með þessa peninga. Það er uggur í mér að svona miklir fjármunir séu mögulega að koma inn í fjárlögin haustið fyrir kosningar. Ég á eftir að sjá hvernig við stöndumst þær freistingar allar.

Það þarf að aflétta höftum, það er eitt verkefnið. Það hefur alltaf verið vitað að uppgjör gömlu búanna afléttir ekki höftum í sjálfu sér en ef þau verða gerð upp þannig að það hafi ekki áhrif á greiðslujafnaðarvanda Íslendinga þá eykur það líkurnar á því að hægt verði að afnema höft. Eitt stórt verkefni er fyrir hendi áður en hægt er að segja að hægt sé að afnema höftin, og í raun fleiri verkefni, það er útboð á aflandskrónum. Mér finnst slæmt að það hafi ekki farið fram nú þegar, að því hafi seinkað svona. Það þarf augljóslega að fara fram áður en hægt verður að aflétta höftum. Svo er auðvitað hið almenna sem við í Bjartri framtíð höfum oft talað um: Hvernig lítur haftalaus framtíð út þegar við erum með íslensku krónuna? Höndlar hún að vera haftalaus?

Ég held að nú sé ákjósanlegur tímapunktur til þess að samþykkja þingsályktunartillögu okkar þingmanna Bjartrar framtíðar um að mörkuð verði stefna í gjaldmiðilsmálum þegar til stendur að aflétta höftum. Margt bendir til þess að hagstjórnarmistökin frá uppgangsárunum og síðan krepputímanum upp úr aldamótunum verði endurtekin með óhóflegu innstreymi og vaxtamunarviðskiptum sem krónan höndlar ekki. Þetta þarf auðvitað að ræða.

Hæstv. forseti. Úr þessari átt kem ég að þessu máli. Mér finnst það ákjósanleg niðurstaða, ef af verður, að búin séu gerð upp þannig að allar íslenskar eigur verði eftir á Íslandi. Það er mjög ákjósanlegt. Það kemur mér eilítið á óvart að því skuli ekki vera almennt fagnað sem niðurstöðu vegna þess að mér fannst margir, bæði í fyrrverandi og núverandi ríkisstjórn, tala á þeim nótum að það væri markmiðið. Mér hefur fundist fleiri tala fyrir því að skynsamlegra væri að reyna að semja sig að því markmiði fremur en að reyna að ná því með öðrum aðferðum. Nú hefur það náðst. Ég upplifi þetta sem góð tíðindi en ég upplifi auðvitað ekki veröldina sem blasir síðan við, ef af þessu verður, vandamálalausa. Við taka mörg stór og krefjandi verkefni.