145. löggjafarþing — 36. fundur,  18. nóv. 2015.

um fundarstjórn.

[15:42]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Mér þykir miður að heyra það að hæstv. utanríkisráðherra ætlar ekki að heiðra þessa samkomu með viðveru sinni nú þegar við erum að taka lokalotuna varðandi það frumvarp sem hér liggur fyrir um að leggja niður Þróunarsamvinnustofnun Íslands. Vissulega er það rétt að hv. þm. Hanna Birna Kristjánsdóttir er formaður utanríkismálanefndar og er stödd í húsinu og að málið er á forræði þingsins. Eigi að síður er það þannig að í fyrstu lotu þessarar umræðu var fjölmörgum spurningum beint til hæstv. ráðherra og óskað eftir því að hann skýrði ákveðna þætti málsins og ákveðin ummæli sín sem málið varða og við því hafa ekki borist nein svör. Ég tel að það sé eiginlega skylda ráðherrans að vera viðstaddur umræðuna og áður en þessu máli lýkur þá þarf hann að svara. Nú getur vel verið að þessu máli ljúki ekki fyrr en handan jóla, en eigi að síður tel ég að það mundi greiða fyrir umræðunni ef hann kæmi hér eða eftir atvikum að einhverjir skutilsveinar hans (Forseti hringir.) sem kunna að geta upplýst um málið (Forseti hringir.) tækju það að sér að reyna að fá hæstv. ráðherra til umræðunnar.