145. löggjafarþing — 37. fundur,  19. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[19:24]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Undanfarin ár allt frá hruni hefur verið mikið ákall um það frá íslensku samfélagi að Alþingi vinni með öðrum hætti og ég held að þau vinnubrögð sem hér eru stunduð séu meginástæðan fyrir því hversu lítið traust margir bera til þessarar þó mikilvægu stofnunar. Ég held að það skýrist að hluta til af þeirri átakamenningu sem hér hefur fengið að ríkja allt of lengi og verður svo gríðarlega ljós í málum þar sem skoðanir eru svona skiptar. Það er ekkert bara hér í þingsal heldur litar það auðvitað störf í nefndum þingsins.

Ég held að allir þingmenn sem hér sitja þurfi að líta í eigin barm hvað þetta varðar. Mér finnst það hafa verið sérstaklega áberandi að nýrri þingmenn hafi bent á þetta, þeim bregður svolítið við að koma inn í þennan átakakúltúr. Auðvitað hafa þingmenn sem hafa mikla þingreynslu líka bent á þetta en það er kannski svolítið sláandi þegar maður kemur inn á þennan vinnustað að verða vitni að þessu því að ég held að við berum öll lýðræðið og hina lýðræðislegu umræðuhefð fyrir brjósti. Ég held að við viljum öll komast út úr því að afgreiða mál sem mjög miklar deilur eru um bara með einföldum meiri hluta því að ég held að við vitum það öll að lýðræðið er svo miklu, miklu (Forseti hringir.) meira en það að einfaldur meiri hluti valti yfir minni hlutann.