145. löggjafarþing — 46. fundur,  3. des. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[16:14]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er góð spurning. Ég er ekki með gögn tiltæk frá nágrannalöndunum, en þar er stuðningur við barnafjölskyldur síður tekjutengdur en hér og gengur upp tekjuskalann. Það er alveg rétt sem hv. þingmaður nefnir, við erum auðvitað að sjá hæstv. fjármálaráðherra innleiða umræðulaust það sem er að finna í þeirri skrýtnu skýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sem var birt um daginn sem er bara að eyðileggja barnabótakerfið. Er það þá orðið þannig að bæði barnabótakerfið og vaxtabótakerfið, þessar höfuðstoðir millistéttarinnar í landinu, eru að verða ónýt í höndum núverandi ríkisstjórnar? Aðförin að meðaltekjufólki af hálfu ríkisstjórnarinnar er náttúrlega algjörlega einstök. Ég held að ekki séu dæmi um annað eins á uppgangstímum í samfélaginu, að þegar svigrúm er í ríkisfjármálum þá skuli menn vísvitandi skerða þessi mikilvægu bótakerfi og kippa þar með tekjujöfnunarhlutverki þeirra út og (Forseti hringir.) þeim lífskjarastuðningi sem þeim er ætlað að veita fólki sem er (Forseti hringir.) að vinna að samfélagslega mikilvægum verkefnum tímabundið, þ.e. að koma sér þaki yfir höfuðið og koma upp börnum.