145. löggjafarþing — 47. fundur,  4. des. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[11:41]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Ég er ekki viss um að ég og hv. þingmaður séum alveg sammála þegar kemur að því hvernig útfæra eigi veiðigjöldin. Ég er þeirrar skoðunar að við þurfum að fara mjög varlega í það og að það sé almennt ekki góður bragur á því að einstaklingar eða fyrirtæki geti ákveðið sjálf hvað þau eiga að borga til ríkisins. Auðvitað þarf að leggja álögur á með sanngjörnum hætti, en mér finnst það ekki almennt séð gott að menn geti bara ákveðið það sjálfir. Ég held að við getum lent í mjög miklum vandræðum ef slíkt ætti að verða ráðandi.

Hv. þingmaður kom í seinna andsvari sínu aðeins inn á barnabæturnar og í ræðu sinni fjallaði hún einnig um breytingartillögu minni hlutans um afturvirkar kjarabætur til lífeyrisþega, öryrkja og ellilífeyrisþega. Ég er svo sammála því sem hv. þingmaður sagði; það er nokkuð valkvætt hvernig menn tala um það, þ.e. um krónutöluhækkanir annars vegar og svo prósentuhækkanir hins vegar þegar það hentar betur. En yfirleitt er það svo að þegar um hópa með mjög lágar tekjur er að ræða skila krónutöluhækkanirnar meira til þeirra.

Mig langar að spyrja svona almennt: Telur hv. þingmaður þessi fjáraukalög og kannski fjármálastefnu ríkisstjórnarinnar almennt bera þess merki að þar sé einhver áhugi fyrir því að bæta kjör þeirra sem höllustum fæti standa í samfélaginu efnahagslega? (Forseti hringir.) Eða virðist áherslan liggja annars staðar?