145. löggjafarþing — 48. fundur,  7. des. 2015.

upplýsingar um fjölda íbúða í byggingu.

[15:27]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Þetta er eitt af því sem var rætt á nýlegri íbúðamessu hjá Reykjavíkurborg þar sem var einmitt bent á að ekki hefur verið haldið nægilega vel utan um fjölda þeirra íbúða sem eru í byggingu hverju sinni. Það eru upplýsingar sem má finna á vef Hagstofunnar en það er aðeins öðruvísi aðferðafræði en Samtök iðnaðarins hafa verið með varðandi sínar talningar. Á þessum fundi var meðal annars rætt um að þetta gæti orðið eitt af verkefnum hjá Mannvirkjastofnun, að halda utan um það, því að öll gögn sem snúa að íbúðabyggingum eiga með einum eða öðrum hætti að fara þar inn eða væri hægt að kalla eftir þeim frá sveitarfélögunum sem halda utan um skipulagsmálin.

Við hæstv. iðnaðarráðherra og hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra erum núna að leggja lokahönd á nýjan byggingarvettvang þar sem við munum leggja fram bæði sérfræðiþekkingu og fjármagn í að styðja við það hvernig við getum fjölgað íbúðum, byggt hagkvæmar og hraðar og betur vandað, en jafnframt höfum við farið yfir það hvernig við getum tryggt betri upplýsingar um húsnæðismarkaðinn í heild sinni. Það er nokkuð sem starfshópur á mínum vegum varðandi framtíðarskipan húsnæðismála lagði til og það sama gildir um starfshóp sem ég sat í en var stýrt af hv. þm. Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur á síðasta kjörtímabili. Þar var tekinn saman fjöldi þeirra gagna sem eru til í kerfinu og snúa að húsnæðismarkaðnum. Það eru kannski meiri gögn en maður gerir sér grein fyrir en þau eru dreifð mjög víða í kerfinu.

Eitt af því sem okkur er mjög umhugað um er að fá betri yfirsýn yfir þetta og kannski innleiða aðeins meiri markaðshugsun inn í byggingargeirann en hefur verið áður svo að það sé ekki þannig að allir ákveði á einum tímapunkti að byggja stórar íbúðir og svo næstu fjögur árin ætlum við einungis að byggja litlar íbúðir, heldur huga að því hvað fjölskyldurnar eru fjölbreyttar og margvíslegar.