145. löggjafarþing — 48. fundur,  7. des. 2015.

upplýsingar um fjölda íbúða í byggingu.

[15:31]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka enn á ný fyrir framhaldsfyrirspurnina. Við munum fara yfir það núna, og það er hluti af samstarfsverkefni þessara þriggja ráðherra sem ég nefndi, hvernig sé best að haga þessu.

Það hefur verið starfandi starfshópur á vegum umhverfis- og auðlindaráðherra sem hefur farið yfir byggingarreglugerðina og eru víst komnar fram margvíslegar tillögur um það hvernig hægt sé að tryggja að hægt sé að byggja hagkvæmara húsnæði en hingað til hefur verið gert. Síðan skilist mér að það séu jafnvel komnar ákveðnar tillögur sem snúa að lagabreytingum þannig að það þurfi að koma með frumvarp hingað í þingið til að mæta þeim hugmyndum.

Við sjáum það að í nýjustu spám sem hafa verið að koma um fjárfestingu í íbúðarhúsnæði er gert ráð fyrir töluverðri aukningu á næsta ári og þar næsta ári frá því hvernig staðan hefur verið. Við sjáum einnig að fjöldi fyrstu kaupenda er orðinn sambærilegur því sem hann var á mánuðunum fyrir hrun og kaupsamningar eru orðnir ívið fleiri en þeir voru þá í þeim tölum. (Forseti hringir.) En það liggur hins vegar líka fyrir, eins og hv. þingmaður sagði, að við þurfum að fjölga íbúðum og við þurfum að tryggja að þær séu eins fjölbreyttar og hægt er því að aðstæður fólks eru svo misjafnar.