145. löggjafarþing — 49. fundur,  8. des. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[14:11]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Það er fleira en fjárþörf Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða sem ríkisstjórninni hefur gengið illa að áætla. Hér á að taka inn tekjuaukningu upp á 15,8 milljarða tæpa í lið 8.21 Arðgreiðslur frá fjármálastofnunum, og kemur aðallega til vegna þess að menn vanáætluðu arðgreiðslur úr Landsbankanum undir árslok síðasta árs upp á 18 milljarða kr. þegar fyrir lá, miðað við afkomu bankans og vilja stjórnenda hans, að hann mundi greiða ríkissjóði á þriðja tug milljarða í arð. Og það sama á að endurtaka sig í fjárlögum núna, að því er ég fæ best séð.

Ég gæti haft skilning á því að hæstv. fjármálaráðherra vildi frekar vanáætla þessar tekjur en of ef hann er að reyna að verja sig fyrir útgjöldum, en þetta er ekki góð aðferðafræði, það er ekki fallegur svipur á því að koma með sömu liðina ár eftir ár bullandi vanáætlaða, annaðhvort á tekjuhlið eða útgjaldahlið, eins og þessi tvö skýru dæmi bera með sér.

Hæstv. fjármálaráðherra veit vel að það er afkoma bankans og efnahagur sem ræður miðað við þá stefnu sem þar er um arðgreiðslu sem gefur nokkurn veginn nákvæma tölu. Nú liggur afkoman fyrir á þremur ársfjórðungum og að sjálfsögðu er engin ástæða til að endurtaka leikinn einu sinni enn.