145. löggjafarþing — 53. fundur,  12. des. 2015.

breytingartillögur við fjárlagafrumvarpið.

[14:11]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg):

Virðulegur forseti. Það er merkilegt hvernig þingmenn stjórnarliðsins og ráðherrar ríkisstjórnarinnar líta ævinlega á sjálfa sig sem fórnarlömb, þau séu fórnarlömb einhverrar umræðu, þau séu fórnarlömb umræðna á Alþingi og öll gagnrýni, ég tala nú ekki um málefnaleg umræða um stór mál eins og fjárlagafrumvörp, geri þau að einhverjum fórnarlömbum. Lífið hverfist ekkert um þetta fólk. En þau eru í forsvari fyrir stjórnarmeirihlutann á þingi. Þau bera ábyrgð á málum, þar af leiðandi þegar mál fara úr skorðum, þar af leiðandi þegar mál eins og fjárlagafrumvarp er komið í algjörar ógöngur. Það eru svo stór atriði í því frumvarpi sem hér er til umræðu sem þarfnast nánari skoðunar að í fyrsta lagi þarf að prenta upp nefndarálit meiri hlutans í miðri umræðu. Er þá ekki rétt, virðulegi forseti, að við frestum umræðunni þótt það (Forseti hringir.) væri ekki nema í einn til tvo daga meðan verið er að prenta upp þannig að við höfum rétt nefndarálit (Forseti hringir.) frá meiri hlutanum til umræðu til grundvallar því sem við ætlum að segja hérna? Við erum með vitlaust (Forseti hringir.) nefndarálit. Það er ekki hægt að byggja umræðuna á gagni sem er ekki rétt.