145. löggjafarþing — 54. fundur,  14. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[22:10]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Katrínu Jakobsdóttur fyrir ræðuna. Ég get tekið undir margt sem fram kom í ræðu hv. þingmanns um það verklag sem ríkir við gerð fjárlaga almennt frá því að fjárlagafrumvarp er lagt fram og til þess dags sem það er til 2. umr. og svo væntanlega til 3. umr.

Mig langar að spyrja hv. þingmann vegna þess sem hún ræddi um Ríkisútvarpið. Það liggur fyrir að ástæða þess að hæstv. menntamálaráðherra ræddi að það þyrfti að halda útvarpsgjaldinu í 17.800 kr. í staðinn fyrir 16.400 er meðal annars vegna arfavitlauss samnings sem gerður var um dreifikerfið og kostar útvarpið mikla peninga. Finnst hv. þingmanni að þegar yfirmenn í stofnun taka svo arfavitlausa ákvörðun þá eigi að vera sjálfsagt að taka af skattfé til þess að greiða fyrir þá arfavitlausu ákvörðun en stjórnendur (Forseti hringir.) stofnunarinnar þurfi ekki að draga saman vegna slíkrar ákvörðunar?