145. löggjafarþing — 54. fundur,  14. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[23:41]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég hef ekki mikið við fundarstjórn herra forseta að athuga, enda tel ég að hann hafi hér fyrr í dag flutt eina albestu ræðu sem lengi hefur verið flutt á Alþingi Íslendinga. Hins vegar tel ég að það mundi greiða fyrir þingstörfum og hugsanlega taka svolítinn hita úr þessari umræðu ef hæstv. forseti gerði uppskátt um það hversu lengi hann hyggst halda þessum fundi áfram.

Það hefur komið fram hjá ýmsum hv. þingmönnum hvernig þeir kjósa helst að vinna sín störf. Það kom mér til dæmis á óvart að hv. þm. Brynjar Níelsson talaði um að sér færi best að vinna sín störf í myrkri. Hugsanlega er svo um fleiri stjórnarþingmenn því að ég verð að segja að ákveðna þætti þessa frumvarps sem við ræðum hér mundi ég flokka undir myrkraverk. Ég ætla ekki að æsa mig yfir ræðu hæstv. forsætisráðherra hér fyrr í dag, ég tel að hún hafi ekki hjálpað til, en hún er angi af því sem er að plaga þetta þing, öfugþróuninni sem kristallast í einu orði; ráðherraræði.