145. löggjafarþing — 55. fundur,  15. des. 2015.

orð þingmanns -- lengd þingfunda.

[10:32]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegur forseti. Það er alþekkt í þingsal að í hita leiksins eigum við hv. þingmenn það til að segja eitt og annað hver við annan, sumt sem menn sjá eftir og annað sem er tekið sem létt grín í hita leiksins.

Ég sé ástæðu til að tala hér sérstaklega um ummæli hv. þm. Birgittu Jónsdóttur sem hún viðhefur um mig á fésbókarsíðu sinni sem ég sá í morgun þar sem hún segist nánast hafa þurft að leita sér áfallahjápar vegna dónaskapar og tuddaskapar míns þegar hún var sessunautur minn á síðasta þingi. Mér finnst þetta alvarleg ummæli, virðulegur forseti. Ég hef ekki fengið neinar athugasemdir frá forsætisnefnd eða forseta þingsins um framkomu mína gagnvart hv. þm. Birgittu Jónsdóttur sérstaklega og ég óska eftir því að forsætisnefnd og forseti þingsins hlutist til um að þessi ummæli verði skoðuð og helst rannsökuð. Ég kannast sem sagt ekki við þetta sérstaklega, finnst þetta alvarlegt, finnst leitt ef svo er að þingmenn sem eru sessunautar mínir hér á þingi þurfa (Forseti hringir.) að leita sér áfallahjálpar eftir slíkt. Ég tel fullt tilefni til að um þetta verði fjallað í forsætisnefnd og málið skoðað sérstaklega. (BirgJ: Endilega.)