145. löggjafarþing — 56. fundur,  16. des. 2015.

störf þingsins.

[10:16]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (F):

Hæstv. forseti. Ég hef undanfarna daga verið að gaumgæfa tölur um atvinnuleysi frá októberlokum og þær eru um margt til þess fallnar að veita manni bjartsýni. Það eru 4.600 manns á Íslandi sem eru atvinnulausir enn þá. Það er sérstaklega athyglisvert að mínu áliti að í þeim hópi er væntanlega rúmlega 100 manna hópur iðnaðarmanna sem er atvinnulaus. Það skýtur skökku við vegna þess að mjög er auglýst eftir kröftum slíkra manna þessar dagana og vikurnar og jafnvel verið að flytja inn þessa þekkingu frá útlöndum sem mér sýnist vera næsta óþarft að þessu leyti ef hægt er að finna þessum tugum eða um 100 iðnaðarmönnum sem nú eru á atvinnuleysisskrá á Íslandi vinnu.

Annað er hitt að ég las í blaði nýlega að um 1.500 störf mundu myndast á Keflavíkurflugvelli næsta sumar. Mér þykir einboðið að þeir sem ráða þar ferð ráði fólk af atvinnuleysisskrá í þau störf sem losna suður á Keflavíkurflugvelli. Ég hef hins vegar lausafregnir af því að eitt af dótturfyrirtækjum Flugleiða eða Icelandair hafi auglýst 200 störf í Póllandi í því skyni að flytja inn ódýrara vinnuafl. Þetta skýtur mjög skökku við, herra forseti, vegna þess að einn af aðaleigendum Icelandair, eru íslensku lífeyrissjóðirnir, íslenskt atvinnulíf. Ég skil ekki hverju það sætir ef menn ætla að flytja (Forseti hringir.) inn verkafólk til þess að geta haldið niðri launum þegar við höfum nokkrar þúsundir á atvinnuleysisskrá.


Efnisorð er vísa í ræðuna