145. löggjafarþing — 56. fundur,  16. des. 2015.

störf þingsins.

[10:38]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Það er ágætt að koma hér á eftir hv. þm. Bjarkeyju Olsen sem ræðir nákvæmlega um það hvað umræðan er vitlaus um fjárlögin. (BjG: Þetta eru orð Bjarna, ekki mín.) Það er hárrétt hjá hv. þingmanni og ég ætla að taka eitt mál sem mér finnst vera risastórt, einfaldlega það að hv. stjórnarandstæðingar koma í löngum röðum og virkilega reyna að halda því fram að það hafi verið niðurskurður í heilbrigðiskerfinu. Frá því að þessi ríkisstjórn tók við hafa fjárlögin hækkað um 17%. Heilbrigðismálin hafa hækkað um 25%. Nú skulum við skoða hvað hv. þingmenn í stjórnarandstöðunni sem stýrðu hér á síðasta kjörtímabili gerðu þegar þeir voru að spara. Hvar spöruðu þeir? Hlutfallslega langmest í heilbrigðismálunum. Ég vitna í svar sem ég fékk frá hæstv. fjármálaráðherra þáverandi, Steingrími J. Sigfússyni. Þá var flokkað eftir ráðuneytum hvar ríkisstarfsmönnum var sagt upp. 68% komu frá heilbrigðisráðuneytinu, hefðu átt að vera 38% ef það hefði verið skorið jafnt niður á alla. Það munar 216 ársverkum sem vinstri stjórnin ákvað að taka niður í heilbrigðismálum. Svo voga sér þessir aðilar að koma hingað og tala um þá sem eru að byggja upp heilbrigðiskerfið, sem eru að bæta í heilbrigðiskerfið, og segja að þeir séu að skera niður.

Þetta eru tölur frá stjórnarandstöðunni þegar hún var í ríkisstjórn. Hún bætti í utanríkismálin, hún bætti í umhverfismálin en tók heilbrigðismálin sérstaklega niður. Hér er ég að vitna í hennar eigin orð, hennar eigin tölur, virðulegi forseti. Ég geri ráð fyrir að (Forseti hringir.) hæstv. fjármálaráðherra hafi verið að tala um þetta þegar hann talaði um hvað umræðan væri vitlaus. Svo sannarlega er hún vitlaus ef einhver trúir hv. stjórnarandstöðu og því sem hún leggur hér fram.


Tengd mál

Efnisorð er vísa í ræðuna