145. löggjafarþing — 56. fundur,  16. des. 2015.

störf þingsins.

[10:43]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (F):

Hæstv. forseti. Í dagsbirtu eru flestir landsmenn á Íslandi við störf og eiga þess vegna ekki hægt um vik að fylgjast með fjárlagaumræðu þótt góð sé.

En ég ætla að ræða annað. Ég rakst á frétt í morgunsárið sem segir að Íslandsbanki ætli nú í vikunni að afhenda ríkissjóði Íslands allt sitt lausafé sem er um 400 milljarðar íslenskra króna. Nauðasamningar slitabúanna hafa átt greiða leið í gegnum dómskerfið sem betur fer og þess vegna er rétt að rifja það upp núna þegar fyrsti skammturinn af þessum fjármunum færist í hendur ríkissjóðs að fyrir síðustu kosningar var einn flokkur sem hélt því fram að þessa peninga væri hægt að sækja, Framsóknarflokkurinn undir dyggri stjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, og hann var umsvifalaust kallaður popúlískur og sagður fara með yfirboð. Menn voru spurðir hvernig í ósköpunum við gætum einir manna fullyrt að hægt væri að hafa fé af erlendum vogunarsjóðum. Hvað gerist nú þegar þessir peningar streyma inn í ríkissjóð? Þá koma þeir sem gátu ekki, þorðu ekki og vildu ekki og segja: Þetta er ekki nóg. Það hefði verið hægt að fá meira. Við hefðum getað fengið meira. Núna.

Er þetta trúverðugt? Nei, herra forseti, þetta er ekki trúverðugt. Það er ekki sæmandi að menn komi hér upp hver á fætur öðrum og tortryggi þann árangur sem er að verða hér. Hundruð milljarða streyma inn í ríkissjóð Íslands, nota bene ekki til að nota í hagkerfið, ekki til að blása hér í bólu, heldur til að styrkja ríkissjóð, styrkja stöðu hans, okkur öllum til heilla inn í framtíðina.


Efnisorð er vísa í ræðuna