145. löggjafarþing — 67. fundur,  26. jan. 2016.

Parísarfundurinn um loftslagsmál, munnleg skýrsla umhverfis- og auðlindaráðherra.

[15:21]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu og skýrslu ráðherra um þetta mjög mikilvæga mál. Mig langar til að tala um heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna. Markmið nr. 12 heitir „Ábyrg neysla, ábyrg framleiðsla“ og það tekur á nokkrum þáttum. En í raun má segja að öll umhverfismarkmið sem við setjum okkur fari fyrir lítið, ef við náum ekki stjórn á neyslunni sem hefur gjörsamlega farið úr böndunum, neysla jarðarbúa.

Neyslan er meðal annars völd að gróðureyðingu, súrnun sjávar, mengun sjávar vegna plasts í hafi, útblæstri gróðurhúsalofttegunda, skógareyðingu, vatnsmengun, útrýmingu dýrategunda; það er bara afleiðingin af þeim óstjórnlega ágangi í þær takmörkuðu auðlindir sem við höfum hér á jörðinni. Ástæðan fyrir því er kannski fyrst og fremst græðgi, yfirgangur og spilling.

Ég ætla að taka nokkur dæmi um vörur eða hráefni sem við notum án þess að leiða nokkurn tímann hugann að því hvaða afleiðingar framleiðslan hefur. Tökum sem dæmi pálmolíu sem er olía sem er tiltölulega ódýr. Hún er mjög mikið notuð, bæði í snyrtivörur og sápur en einnig í matvæli; hún þykir henta vel í matvæli sem grænmetisolía. En hún hefur mjög mikil og neikvæð umhverfisáhrif í för með sér. Pálmolían er að miklu leyti ræktuð í Malasíu og Indónesíu, ég held að um 80–90% framleiðslunnar fari fram þar.

Til að rækta tréð sem pálmolía er unnin úr þarf plantekrur og til að koma þeirri ræktun í gang þarf að ryðja mjög viðkvæm og mikilvæg vistkerfi. Menn eru að reyna að ná utan um þetta því að það liggur fyrir að ef svo fer fram sem horfir munu órangútanar ekki lengur verða til og ekki heldur Súmötrutígrisdýrin. Dýrin hrekjast úr sínu eðlilega vistkerfi vegna þess að þarna er yfirgangur mannsins allt umlykjandi. Ef ég hefði skjávarpa mundi ég sýna ykkur mynd af Borneó og þeirri gróðureyðingu sem átt hefur sér stað þar á undanförnum áratugum, og það er ekkert grín. Menn eru jafnvel að tala um að búið verði að útrýma Súmötrutígrisdýrinu eftir ekki meira en þrjú ár.

Til að reyna að ná utan um þetta hafa framleiðendur reynt að búa til einhvers konar vottun þannig að við neytendur, þegar við förum og kaupum vöru sem er með pálmolíu í, getum séð að framleiðslan er ábyrgari en ella. Við þekkjum ýmis svona merki, Fair Trade og annað.

Ég get tekið dæmi um bómull, sem er hrávara sem veldur miklu umhverfisálagi. Við notum öll sem hér erum bómull. Við notum gríðarlega mikið af eiturefnum í bómullarræktun. Síðan þarf að lita bómullina og það er annað eins. Það er gert einhvers staðar í fátækum löndum þar sem umhverfislöggjöf er ábótavant, þar sem vinnuvernd er ábótavant. Það er einmitt þess vegna sem framleiðslan er ódýrari. Það er þess vegna sem við höfum fært hana yfir til annarra landa, fátækari landa.

Jafnvel þótt að við vitum þetta — afleiðingarnar liggja fyrir, við getum lesið um þetta allt á internetinu, það hafa verið skrifaðar heilmargar skýrslur — þá komumst við einhvern veginn ekki fyrir þennan vanda. Kannski vegna þess að á sama tíma er gaman að neyta og það er einkaneysla sem heldur hagkerfinu uppi. Þannig að það er í sjálfu sér enginn þarna úti sem er að segja okkur að kaupa minna. En það er raunverulega það sem við þurfum að gera. Við hendum of miklum mat, við kaupum of mikið af fötum, við brennum of miklu jarðefnaeldsneyti og þar fram eftir götunum.

Ég verð að segja að stundum fallast mér hendur. Þó að það hafi verið mjög ánægjulegt að þetta samkomulag hafi náðst í gegn í París þá er það samt þannig að við þurfum að gera svo miklu betur. Ég gæti til dæmis talað um ananasrækt á Kostaríka og áhrifin sem sú ræktun hefur á fólkið sem býr þar. Gegndarlaus notkun á eiturefnum, varnarefnum og þar fram eftir götunum sem mengar síðan út í ár og vötn. Ég man eftir að hafa séð mynd af vatni í Mexíkó þar sem gallabuxnaframleiðendur höfðu komið sér fyrir. Vatnið var blátt vegna þess að litarefni fóru út í vatnið og menguðu það vatn sem bændurnir treystu á að nota við sína ræktun.

Margir halda að búið sé að tryggja að vörur sem eru seldar á Íslandi eða á Vesturlöndum séu í lagi. Að sjálfsögðu getur ekki hafa verið barnaþrælkun í gangi, auðvitað eru þær umhverfislega forsvaranlegar — en það er ekki þannig. Það er því miður ekki þannig. Mér finnst við þurfa að gera svo miklu meira í því og ég vil hvetja stjórnvöld til að upplýsa og fræða neytendur þannig að við getum tekið meðvitaðar ákvarðanir.

Við ættum til dæmis ekki að kaupa neitt annað en það sem er merkt umhverfismerkinu Svaninum. Hið opinbera ætti eingöngu að nota vörur sem annaðhvort eru merktar Svaninum eða Evrópublóminu og Fair Trade kaffi ætti að vera á boðstólnum hér á Alþingi. (Forseti hringir.)

Virðulegi forseti. Tíminn er liðinn. Ég hefði getað haldið áfram lengur en áfram verður rætt um umhverfismál á morgun.