145. löggjafarþing — 69. fundur,  28. jan. 2016.

norrænt samstarf 2015.

463. mál
[12:58]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir skýrsluna og óska honum til hamingju með viðurkenninguna. Það er einn angi af hinu norræna samstarfi sem mig langar að spyrja hv. þingmann út í og má kannski segja að tengist inn á stjórnsýsluhindranir, ég held að það hljóti að flokkast þar undir. Þetta er mál sem ég hef þó nokkrum sinnum rætt við hæstv. félags– og húsnæðismálaráðherra og er mál sem varðar greiðslur úr almannatryggingakerfinu til þeirra sem fá skertar greiðslur vegna búsetu á landinu, en til að fá fullar greiðslur úr almannatryggingakerfinu þarf að hafa 40 ára búsetu hér á landi á meðan fólk er á aldrinum 18–67 ára.

Það er sem sagt þannig að það er talsvert af fólki sem ekki hefur verið með búsetu eða uppfyllir ekki skilyrði um búsetu og kerfið á að virka þannig að fólk fái þá greiðslur frá því landi sem það hefur haft búsetu úr lífeyris- eða tryggingakerfum þeirra landa. Það er hins vegar misbrestur á því að fólk fái þær greiðslur, m.a. vegna þess að almannatryggingakerfin eru ólíkt uppsett. Þetta gildir ekki aðeins um fólk sem hefur búið í fjarlægum löndum heldur líka um fólk sem hefur verið búsett annars staðar á Norðurlöndunum. Mig langar að beina því til hv. þingmanns og spyrja hann: Er þetta mál sem hefur komið til umræðu á vettvangi Norðurlandaráðs? Er þetta eitthvað sem fólk er að ræða þar?