145. löggjafarþing — 86. fundur,  10. mars 2016.

störf þingsins.

[10:42]
Horfa

Þórunn Egilsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Í dag hefst Hönnunarmars, hátíð sem nú er haldin í áttunda skipti og hefur sannarlega fest sig í sessi því að þar sameinast allar greinar hönnunar og eru kynntar sem atvinnugrein sem byggir á traustum grunni og gegnir veigamiklu hlutverki í samtímanum.

Það að sjá gróskuna, kraftinn og hæfileikana sem íslenskir hönnuðir búa yfir fær mig til að vekja athygli á því að ríkisstjórn Íslands ákvað á fundi sínum í liðinni viku að tillögu forsætisráðherra og mennta- og menningarmálaráðherra að veita 6 millj. kr. af ráðstöfunarfé sínu til verkefnisins Handverk og hönnun.

Handverk og hönnun hefur starfað óslitið frá 1994, fyrst sem verkefni á vegum forsætisráðuneytis og síðan sem samstarfsverkefni fjögurra ráðuneyta. Árið 2007 var stofnuð sjálfseignarstofnun um starfsemina sem hefur starfað í skjóli mennta- og menningarmálaráðuneytisins síðan þá.

Markmið gildandi samnings er í fyrsta lagi að efla handverk og listiðnað með ráðgjöf og upplýsingum og að auka gæðavitund á þessu sviði. Í öðru lagi að leggja áherslu á menningarlegt, listrænt og hagnýtt gildi handverks og listiðnaðar með fjölbreyttri kynningarstarfsemi og halda utan um gagnagrunn um starfsemi handverks og listiðnaðar á öllu landinu.

Starfsemi Handverks og hönnunar skiptir sköpum fyrir fjölmargt handverksfólk, listiðnaðarmenn og hönnuði um allt land, ekki hvað síst einstaklinga í hinum dreifðu byggðum landsins. Handverk og hönnun stendur fyrir listviðburðum, sýningum og kynningum þar sem handverks- og listiðnaðarfólk af öllu landinu getur komið verkum sínum á framfæri.

Mörg dæmi eru um að skapast hafi einstök störf á landsbyggðinni í tengslum við þessa viðburði. Handverk og hönnun hefur í raun verið ígildi þróunarseturs í handverki og listiðnaði auk þess að vera í virku samstarfi við sambærileg samtök á Norðurlöndunum.

Með starfseminni er staðinn vörður um þann mikilvæga menningararf sem íslenskt handverk er. Ég hvet okkur öll til að standa áfram vörð um þetta merka starf.


Efnisorð er vísa í ræðuna