145. löggjafarþing — 101. fundur,  19. apr. 2016.

rannsóknarnefndir.

653. mál
[19:32]
Horfa

Flm. (Einar K. Guðfinnsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að þetta sé mikilvægur þáttur sem hv. þingmaður nefnir hérna, sú þróun sem við höfum aðeins séð verða í þinginu upp á síðkastið að þingnefndir taki upp að eigin frumkvæði einstök mál, mál sem hafa komið upp í þjóðmálaumræðunni, mál sem kannski komu upp vegna upplýsinga sem viðkomandi þingnefnd hefur aflað sér af öðru tilefni, sem getur þá gefið sérstakt tilefni til þess að fara nánar ofan í það mál. Þingnefndir hafa heimildir og svigrúm samkvæmt þingsköpum til að taka slík mál upp. Mér sýnist grilla í að þróunin hafi verið í þá áttina að þingnefndir eru einmitt að taka upp slík mál og fjalla um þau. Að einhverju leyti er þetta síðan birt í formi nefndarálits, en það er örugglega rétt hjá hv. þingmanni að eitt af því sem væri áhugavert fyrir þingið að velta fyrir sér er hvort það ætti í meira mæli að taka upp þau vinnubrögð að skila einhverri skriflegri afurð sem væri þá eftir atvikum hægt að ræða í þinginu.

Þetta kallar væntanlega á jafnvel meiri aðstoð við þingnefndir sem er auðvitað bara hluti af þeirri umræðu sem við höfum viljað halda á lofti, að auka faglega aðstoð við þingið. Það hefur miðað í rétta átt í þeim efnum ef maður skoðar þetta í einhverju samhengi. Þetta eru áhugaverðir hlutir þótt þetta mál út af fyrir sig taki ekki á því vegna þess að það fjallar eingöngu um rannsóknarnefndirnar. Eins og hv. þingmaður bendir réttilega á er hins vegar fullt tilefni fyrir okkur í þessu samhengi til að velta fyrir okkur hvernig við viljum þróa það í framtíðinni.