145. löggjafarþing — 109. fundur,  10. maí 2016.

staða Mývatns og frárennslismála.

[14:32]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegur forseti. Einstök og viðkvæm náttúra Íslands verður fyrir vaxandi álagi vegna mikils vaxtar í ferðaþjónustu. Það er kannski hin dökka hlið á annars þeim góðu fréttum sem almennt berast úr þeirri atvinnugrein sem skiptir okkur stöðugt meira máli. Við því verður að bregðast og er alveg ljóst í tilfelli Mývatns að uppbygging innviða til að bregðast við svona álagi til að vernda íslenska náttúru og náttúruundur eins og þar er á ferðinni, er ofviða litlum eða fámennum sveitarfélögum. Ekki viljum við fara út í þá róttæku aðgerð að loka svæðum, geri ég ráð fyrir.

Það sem er svo hrópandi við stöðuna í Mývatni, eins og svo oft þegar kemur að þessum málum, er að þar eru menn ekki á eitt sáttir um hvað veldur, en þó má ljóst vera af þeim upplýsingum sem eru fyrir framan okkur að það eru ákveðnir hlutir sem við getum brugðist við og aðra þarf að setja í enn frekari rannsóknir. Viðbrögð okkar við þessu ástandi verða að vera mjög markviss og ákveðin. Það er mikið undir og ég fagna því að hæstv. ráðherra hafi boðað hér að hópur manna verði settur saman til að meta þessar aðstæður og koma með tillögur.

En ég tel líka að við þurfum að bregðast við strax með þeim verkum sem hægt er að grípa til. Þá komum við að fjármögnun þessara verkefna. Inn í þá mynd kemur auðvitað gjaldtaka af ferðamönnum og aðgengi sveitarfélaga á borð við sveitarfélagið við Mývatn, hvernig við getum fjármagnað þessa hluti. Ég hef áður lýst þeirri skoðun minni að ég tel að við eigum að hefja gjaldtöku af ferðamönnum, (Forseti hringir.) byggja upp sjóð sem getur nýst okkur við þessar aðstæður. Ég tel að fyrst og fremst þurfi að leita til þeirra sveitarfélaga (Forseti hringir.) sem í vök eiga að verjast til að verja þessa staði en (Forseti hringir.) ekki endilega að leita til þeirra staða þar sem flestir þeirra gista.