145. löggjafarþing — 118. fundur,  25. maí 2016.

lögreglulög og lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

742. mál
[17:17]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Frú forseti. Hér ræðum við afar mikilvægt mál, þ.e. menntun lögreglu. Eins og mörgum er kunnugt hef ég mikinn áhuga á störfum lögreglunnar, ekki síst starfsaðstöðu, kjörum og öðru slíku sem lýtur að verksviðum þeirra dagsdaglega og hvernig það hefur verið undirfjármagnað allt of lengi.

Þetta tiltekna frumvarp snýr að breytingu á menntun lögreglu, að leggja niður Lögregluskóla ríkisins og færa námið upp á háskólastig. Ég sat ráðstefnu að ég held 2013 þar sem lögreglumenn frá hinum norrænu ríkjunum voru saman komnir og meðal annars annars voru menntunarmál rædd. Þar sá maður og heyrði muninn á þeim þar og hér heima. Þau eru ekki eins alls staðar en verða svipuð með þeirri breytingu sem er lögð til hér.

Talað er um að mikilvægt sé að lögreglan svari kröfum tímans um almannaöryggi og komist á svipaðan stað og önnur Evrópuríki, sérstaklega hin norrænu ríkin, að við komumst á svipaðan stað og þau hvað varðar menntun. Það má geta þess að Danir breyttu náminu úr þriggja ára háskólanámi í tveggja ára. Það var meðal annars vegna þess að endurnýjunin var ekki nógu hröð, það var kannski stóra ástæðan. Það sóttu ekki nógu margir um og endurnýjunin var ekki nógu hröð í löggæslunni. Svo eru launin, þó að þeir séu margfalt betur launaðir en íslenskir lögreglumenn, líka hluti af skýringunni. Síðan er það stóri vandinn sem meira og minna öll löggæsla stendur frammi fyrir, flóttamannavandinn og annað. Álagið er mikið, eins og við þekkjum, og sumir megna ekki að standa í slíku og hætta þess vegna störfum.

Ég hef undirritað nefndarálitið með fyrirvara. Ég ræddi mjög ítrekað í nefndinni um ákveðna þætti málsins. Ég geri mér alveg grein fyrir því að lögreglustörfin fara með tíð og tíma mjög mikið út í ákveðna sérhæfingu, þ.e. framtíðarlöggæslan. Maður heyrir að víða í kerfinu eru lögreglumenn komnir með viðbótarmenntun til að geta tekið að sér önnur störf en hafa þá reynsluheim lögreglunnar, sem nýtist sem betur fer víða. En auðvitað þurfum við að hafa lögregluna okkar vel mannaða. Það er talað um að það vanti, ætli það sé ekki að lágmarki hundrað og hugsanlega nær tvö hundruð manns til starfa. Ég hef áhyggjur af því að hér sé vanmetinn kostnaður varðandi tilfærslu og þá breytingu sem er lögð fram þar sem hluti af fjármögnuninni á að lenda á ríkislögreglustjóra, þ.e. það sem viðkemur verknáminu. Ég held það sé rétt hjá mér að Lögregluskólinn hafi skaffað búninga og annað slíkt sem þarf þá að bæta ofan á þessa 40 nema, að því gefnu að við fáum 40 nema í kerfið.

Menntamálaráðuneytið deildi þeim áhyggjum mínum þegar þau komu til fundar við okkur. Þau voru kölluð til ráðgjafar eftir að innanríkisráðuneytið hafði lagt frumvarpið fram og lögðu fyrst og fremst til breytingar á því til að það stæðist tilteknar reglur og lög varðandi menntunarmálin. Nú hafa þau talað við Ríkiskaup og falið þeim að finna háskóla til að taka þetta að sér. En þau höfðu áhyggjur af hraðanum og fjármálunum. Ég deili þeim áhyggjum með þeim.

Ég ætla að byrja á háskólunum og því hver tekur þetta að sér. Þetta eru ríkisstarfsmenn og mér finnst að ríkisháskólarnir eigi að sitja við þetta borð, ég tek undir þá skoðun. Bæði er það vegna skólagjalda en einnig vegna þess að ég tel að þeir standi ekki síður að vígi og séu jafnvel betur í færum til að halda utan um þetta. Þetta er tiltölulega lítil eining sem ég held að eigi að fara inn í ríkisháskólana. Það er þá fyrst og fremst kostnaðurinn sem ég er að hugsa um, þannig að allir sitji við sama borð.

Eins og við sjáum meðal annars í ríkisfjármálaáætluninni eru háskólarnir okkar nú þegar vanfjármagnaðir og þeir fá ekki mikið til viðbótar næstu árin, það rýrnar ef eitthvað er. Menntamálaráðuneytið telur að skotið sé verulega undir markið þar sem gert er ráð fyrir að nemandinn kosti 1,6 millj. kr. Það er miðflokkur í líkani sem þau telja ekki raunhæft að miða við og bentu á Listaháskólann sem er í 3 millj. kr. og ríflega það, 3,5 millj. kr.

Það kom reyndar fram á síðasta fundi með ráðuneytinu að þau gerðu ráð fyrir að hver nemi mundi kosta 2,2 milljónir með starfsnáminu. Þá þýðir það að 600 þúsund, skulum við segja, á nemanda leggst á ríkislögreglustjóra, sinnum 40 og plús — ég veit ekki hvort þarna inni er annar kostnaður, m.a. búningar og annað slíkt sem Lögregluskólinn hefur útvegað fyrir sína nema.

Ég held að þegar við horfum yfir þetta frumvarp sé ekki hægt að horfa fram hjá því að fjárheimildir Lögregluskólans gerðu það að verkum að ekki var hægt að taka við 16 nemendum, þótt mat væri um að það þyrfti 32. Það voru ekki heimildir til að taka inn nema 16 nemendur. Fjárveitingarnar gerðu að verkum að ekki var hægt að taka inn fleiri. Skólaárið eins og það er núna er heldur ekki hefðbundið, þ.e. það byrjaði ekki á sama tíma. Það byrjar yfirleitt í janúar en núna byrjaði það seinna. Það er líka ágætt að við förum aðeins yfir það hvernig námið er uppbyggt. Það hefur hafist í janúar og svo er brautskráning um jólin en núna byrjaði það í september þannig að það yrði örugglega búið næsta haust, vegna þeirra breytinga sem ákveðið var að fara í.

Af því að talað hefur verið um að námið sé að lengjast töluvert mikið þá lengist það samt sem áður aðeins um í kringum tíu vikur. Það hefur verið bóknámsönn í 17 vikur, síðan hefur verið launað starfsnám í 16 vikur og svo aftur bóknám í 17 vikur, þannig að þetta hafa verið um 50 vikur. Tillaga sem liggur fyrir er í kringum 60 vikur samtals. Það er allt í lagi að við rifjum upp að það er ekki meira. En það verður auðvitað öðruvísi. Ég styð að námið fari á háskólastig en finnst að huga hefði mátt betur að mörgu. Það er alveg augljóst að mjög mörgum, bæði þeim sem starfa við skólann, félagi lögreglumanna, menntamálaráðuneytinu og fleirum, finnst svolítið bratt farið á meðan þeir sem standa að þessu vilja fara mun hraðar yfir og klára þetta núna. Það verður að sjálfsögðu niðurstaðan, ég held að það sé alveg ljóst. Þess vegna þurfum við að vanda okkur og koma á framfæri þeim áhyggjum og athugasemdum sem hafa komið fram.

Þá langar mig að tala um ófaglærðu aðilana. Eins og hv. framsögumaður rakti áðan hefur verið talað um að það myndist gap, það séu um 12 að hætta á þessu ári og aðrir á næsta ári og svo útskrifist engir fyrr en eftir tæp tvö ár. Það þýðir að áfram verður undirmannað. Svo er líka ábyrgðarhluti að vera með nema, að því að það hefur verið sagt í umræðunni að eftir fyrsta árið verðum við komin með 40 nema sem verður hægt að setja í afleysingar, þeir verða þá búnir með annað árið af tveimur. Þá má líka segja að ef við ætlum að reyna að gera menntunina verulega góða þurfum við að búa þannig um hnútana að þeim nemum verði ekki falin störf sem fulllærðir reyndir lögreglumenn fást við. Þeim verður kannski att út í eitthvað hreinlega vegna manneklu og þurfa svolítið að standa á eigin fótum. Það geta verið kostir fólgnir í því en ég held að það sé ekki faglegt að gera slíkt, þótt það sé betra að vera með nema sem hafa lokið einu ári í námi en að vera með einhverja sem hafa ekki lokið neinu námi, vissulega má færa rök fyrir því. En ef við ætlum að hugsa um faglega menntun og faglegheit held ég að þetta sé ekki besti kosturinn fyrir nemana.

Mig langar að koma aðeins að starfsþróunarsetrinu sem hefur verið talsvert til umfjöllunar. Þar er verið að búa til nýtt apparat. Í nefndarálitinu segir að í því nýjasta sem kom frá innanríkisráðuneytinu hafi komið fram að verið væri að gerbreyta lögreglunáminu á Íslandi. Ég ræddi meðal annars og spurði um starfsmenn Lögregluskólans, því að það hefur mikið verið gagnrýnt, en búið er að segja starfsmönnum Lögregluskólans upp og þeir hætta störfum í haust. Héraðssaksóknari talaði um það þegar embætti hans var lagt niður, þ.e. sérstakur saksóknari, sem þótti mjög sértækt embætti á sínum tíma. Síðar var stofnað embætti héraðssaksóknara og þá fékk mannskapurinn sem starfaði hjá sérstökum saksóknara tækifæri til að sækja um störfin sem urðu til hjá því embætti. Það hefði alveg mátt velta því upp hvort það hefði ekki verið skynsamlegt í þessu tilfelli líka.

Ég skil þá aðila sem starfa í skólanum og eru komnir með gríðarlega mikla starfsreynslu, sumir eru orðnir fullorðnir en í sjálfu sér er þetta fólk á öllum aldri. Þarna er mikill mannauður og mikil reynsla. Vissulega er um að ræða yfirmenn í einhverjum tilfellum, það er mismunandi eins og við vitum. Það vantar fólk á götuna, það er alveg ljóst. En það breytir því ekki að hér erum við með starfsþróunarsetur sem á að hafa töluvert stórt hlutverk. Það á meðal annars að sjá um starfsnám lögreglunnar í samstarfi við háskólann, það á að sjá um alla endurmenntun og þjálfun starfsmanna, skipulagningu símenntunarinnar, framboð sérhæfðra námskeiða, eftir atvikum í samstarfi við háskóla eða á grundvelli alþjóðasamstarfs o.s.frv. Það hlýtur að vera svo að þeir sem hafa kennt lögreglufræði, fyrir utan verklega þáttinn, nýtist í slíkt starf. Ég skil afskaplega vel þegar menn sem starfa þarna segja að það sé ekkert fast í hendi, eins og sagt er í nefndarálitinu. Ég skrifa undir álitið með fyrirvara og ég hef rætt þessi mál mjög mikið og dreg enga dul á að ég hefði viljað nýta þennan mannauð. Það er ekki nóg að segja að menn séu örugglega þannig búnir að þeim verði boðið starf, hvort sem það er við skólana sem verður samið við af hálfu ráðuneytisins eða annars staðar, að fólkið verði eftirsótt til starfa. Það er auðvitað mjög gott að maður sé það en það er ekkert fast í hendi um að störfin blasi við. Við þekkjum líka viðhorf til fólks sem er komið á miðjan aldur, það reynist fólki ekki alltaf auðvelt að fá vinnu þótt það sé jafnvel sprenglært og hafi góðan starfsferil baki, því miður.

Ég tek undir þær áhyggjur og hef haldið þeim uppi í öllu samtali hvað þetta varðar. Ég átta mig líka á því að það getur vel verið að fólk vilji byrja að einhverju leyti með nýtt blóð þegar búið er til nýtt batterí. En ég held að við töpum heilmiklu á því að nýta ekki mannauðinn, sérstaklega þegar kemur að því að taka alla verklegu þjálfunina. Það er mjög margt sem ekki verður kennt í skóla og verður í raun ekki kennt nema hér, sem ekki er hægt að kenna í fjarnámi, til að mynda akstur með forgangi, valdbeiting eða búnaður, hin almenna þjálfun. Ég tala nú ekki um tilfinningastjórnun á vettvangi og ýmislegt fleira sem þarf að kenna á staðnum. Mér finnst í vanfjármagnaðri löggæslu afskaplega illa farið með peninga að eyða þeim í biðlaun um leið og við töpum þekkingu, í staðinn fyrir að nýta starfskraftana og semja við fólk á einhvern hátt.

Ég held því til haga hér. Þetta eru þær áhyggjur og þær skoðanir sem ég hef viðrað og finnst að þurfi að vera til umræðu í málinu. Það er gott og blessað að færa námið upp á háskólastig og ég tel að það verði til bóta þegar fram í sækir. Í öllu því áreiti sem fylgir því sem lögreglan stendur frammi fyrir í alls konar þungum og erfiðum málum, hvort sem er í upplýsingafærni eða -tækni, brotum eða mansali eða guð má vita hverju, þarf þekkingin að vera til staðar og örugglega aukin upplýsingaþekking og sálgæsla og ýmislegt sem þarf að skerpa á. En ekki síst þarf að taka á endurmenntun hjá þeim sem nú eru að störfum.

Frú forseti. Ég geri ráð fyrir að frumvarpið verði samþykkt en ég vil að það komi fram að ég hef áhyggjur og mundi vilja sjá mannauðinn nýttan mun betur en hér er gert. Ég kem hins vegar til með að standa að frumvarpinu. Heilt yfir held ég að það sé afar mikið til bóta varðandi námsþáttinn. Ég vona að starfsþróunarsetrið nái að eflast og verða betra, en það er ekki gert ráð fyrir nema örfáum einstaklingum inn í það. Ég held að þeir þyrftu að vera mun fleiri ef starfsþróunarsetrið á í raun að ná utan um alla þá þætti sem því er ætlað í frumvarpinu. Því er ætlað mjög veigamikið hlutverk en ekki er gert ráð fyrir nema örfáum einstaklingum til að byrja með. Það er kannski af því að það vantar peninga. Mér finnst þeirri spurningu ekki hafa verið svarað á fullnægjandi hátt hvort þetta nám sé fullfjármagnað. Eins og kom fram á síðasta fundinum er því ekki fullsvarað hvað það getur kostað. Þau eru með hugmyndir um tölur en ég verð að segja að menntamálaráðuneytið telur þær ekki ganga alveg eftir og við hljótum að taka mark á því líka.