145. löggjafarþing — 122. fundur,  31. maí 2016.

tónlistarnám og jöfnun á aðstöðumun nemenda.

797. mál
[22:47]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Hér er mál sem, rétt eins og hér hefur verið nefnt, á sér töluverðan aðdraganda. Það er kannski óþarfi að eyða mörgum orðum í aðdragandann en þó er rétt að rifja það einu sinni enn upp að það samkomulag sem gert var árið 2011 hafði því miður verið þannig úr garði gert að það opnaði á túlkunarmöguleika af hálfu einstakra sveitarfélaga; bent var á orðalag í því samkomulagi sem gaf viðkomandi sveitarfélögum, einu þó sérstaklega, tækifæri til að túlka samkomulagið þannig að þar með hefði myndast og skapast sú staða að sveitarfélögin gætu tekið þá fjármuni sem áður höfðu runnið til þessa náms af borðinu, ef svo má að orði komast, og einungis skilið eftir það fjármagn sem hafði komið með samkomulaginu 2011, til þess að standa straum af kennslu í tónlist á framhaldsstigi og í söng á mið- og framhaldsstigi. Auðvitað er hægt að hafa ýmsar skoðanir á þeirri undirbúningsvinnu sem unnin var hvað það samkomulag varðaði og hvernig þessi staða myndaðist. Ég ætla ekki að hafa um það mörg orð.

Virðulegi forseti. Niðurstaðan varð sú, hvað varðar sveitarfélagið Reykjavík, að túlkun þeirra sem þar hafa verið í forustu leiddi til þess að skelfileg staða myndaðist í rekstri tónlistarskólanna. Það sem kannski var svolítið sorglegt er að í umræðu um þá stöðu, alla tíð fram að niðurstöðu í dómsmáli, var því haldið fram að staðan myndaðist vegna deilu á milli ríkisins og viðkomandi sveitarfélags, þ.e. Reykjavíkurborgar, um það hvernig túlka ætti þetta samkomulag. Ég var þeirrar skoðunar að það ætti að túlka það með sama hætti og fyrrverandi ráðherra hafði talið að ætti að túlka það, en Reykjavíkurborg hafði aðra skoðun. Öll umræðan sneri að því að finna þyrfti lausn í deilunni á milli borgarinnar og ríkisins.

Virðulegi forseti. Það var aldrei nein deila á milli borgarinnar og ríkisins í raun og veru. Það kom síðan fram í dómsmáli sem tónlistarskólarnir höfðuðu gegn borginni, því að í málsvörn Reykjavíkurborgar var ekki lagt upp með það að samkomulagið fríaði með einhverjum hætti Reykjavíkurborg frá þeim skyldum og ábyrgðum sem kveðið væri á um í lögum, heldur að Reykjavíkurborg bæri skyldurnar og ábyrgðina en hefði rétt á því að setja ekkert fjármagn til verkefnisins. Fékkst þá nokkur niðurstaða í deiluna meintu. Það var aldrei verið að deila um samkomulagið. Reykjavíkurborg hafði farið þessa leið og valdið þar með stórkostlegum skaða á tónlistarlífi þjóðarinnar og tónlistarmenntun þessa lands. Staðan var auðvitað orðin þannig að veruleg hætta var orðin á því að helstu tónlistarskólar þjóðarinnar yrðu gjaldþrota og ríkið hafði takmarkaða möguleika til að grípa hér inn í, vegna þess að lögin um verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga eru alveg skýr í þessu máli.

Það sem vakti fyrir fyrrverandi hæstv. ráðherra með þeim samningi sem gerður var 2011, sem hefði kannski í baksýnisspeglinum mátt vera öðruvísi orðaður, var að bæta fjármunum við til að auðvelda og styðja við sveitarfélögin en ekki til þess að þau gætu tekið peningana í burtu og hlaupið frá þeim skyldum sem lög kveða á um. Ég hef sagt það áður að mér finnst ekki bragur á því, hjá þeim flokkum sem eru í forustu í Reykjavíkurborg, að standa þannig að málum gagnvart tónlistarnámi í landinu og eiginlega óskiljanlegt með öllu.

Það er alveg hárrétt, sem hér hefur verið sagt, að það hefur tekið tíma að greiða úr þessari flækju. Ein leið hefði vissulega verið sú að við hefðum gert breytingar á verkaskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga og fært með lögum framhaldsnámið til ríkisins. En þá hefði sá vandi verið uppi að mjög víða eru skólarnir reknir af sveitarfélögunum, þ.e. grunnnámið, miðnámið og framhaldsnámið. Þegar menn gera sér grein fyrir því sjá þeir hvaða flækjustig það er að ætla sér að skera þar á milli og láta ríkið sjá um framhaldsstigið í skólastofnunum þar sem síðan mið- og grunnstigið er rekið af sveitarfélögunum. Það má vel vera að einstaka hv. þingmönnum finnist hlutirnir eiga að ganga hraðar. En ég ætla að leyfa mér að nálgast þetta mál þannig, reyna að undirbyggja það þannig, að ekki verði skaði af í framhaldinu, að menn hlaupi þannig að málinu að þegar upp er staðið verði vandinn enn verri sem síðan þurfi að leysa í framhaldinu.

Þau áform sem ég hef kynnt opinberlega og rætt, varðandi það að ríkið komi að rekstri og stofni framhaldsskóla þar sem tónlist verði meginfag en þó leið til stúdentsprófs, rammast innan og rúmast innan þeirra laga sem gilda um framhaldsskóla á Íslandi og kalla þess vegna ekki á lagabreytingar. Aftur á móti hef ég sagt það hér áður við þingmenn að ég er mjög tilbúinn til að ræða þessi mál. Það þarf ekki meira til en að kalla eftir sérstakri umræðu um þetta mál. Þó að lítið sé eftir af þingtímanum vil ég ítreka að ég er bæði boðinn og búinn að ræða þessi mál og þau framtíðaráform þar.

Virðulegi forseti. Ég get ekki komið með þetta mál hér í lagafrumvarpi, þ.e. stofnun nýs skóla, vegna þess að það stendur ekki til að breyta lögum. En hugsunin þar að baki (ÖS: Það sagði ráðherrann fyrir nokkrum árum síðan.) — Hér er kallað fram í og sagt: „Það sagði ráðherra fyrir ári síðan.“

Virðulegi forseti. Niðurstaðan er sú, að vandlega athuguðu máli — og ég verð að segja alveg eins og er að það skiptir máli að hér sé farið að með gát því að um mikilvæga málaflokka er að ræða og ekki gott að hlaupa til— að unnið sé eftir þeim lögum og reglum sem Alþingi setur og innan þess ramma. Ég hlýt sem ráðherra, farandi með framkvæmdarvald í málinu, að gera það. Varla fer ég að koma hér með lagafrumvarp um, ég veit ekki hvernig ég á að orða það, engar breytingar á lögum.

Það þarf ekki breytingar á lögum til þess að ná þessari niðurstöðu. Reyndar er um að ræða gamlan draum margra hér í landinu, hvað varðar tónlistarnámið, að setja upp tónlistarframhaldsskóla, framhaldsskóla sem snýr að listgrein þar sem lagt er upp með að innan veggja þess skóla rúmist bæði kennsla í klassískri tónlist og rytmískri. Ég vil benda á viðbrögð ýmissa þeirra sem hafa tjáð sig um það mál á opinberum vettvangi, þjóðþekktra listamanna sem hafa tjáð sig um þau áform, bæði úr ranni þeirra sem leggja stund á klassíska tónlist og rytmíska tónlist sem hafa fagnað þeim áformum. Leysir það allan þann vanda sem skapaðist frá og með árinu 2011? — Hann á sér reyndar lengri aðdraganda. Þeim hugmyndum sem komu upp hjá Reykjavíkurborg hefur verið hrint í framkvæmd og eiga sér nokkurn aðdraganda þannig að það er ekki bara samkomulagið 2011 og túlkun á því sem hefur skapað vandann. — Við skulum sjá til. En þessi nálgun byggir á því að ríkið taki að sér að fjármagna framhaldsskóla rétt eins og það fjármagnar fjöldamarga aðra framhaldsskóla, bæði verkmenntaskóla, verknámsskóla og bóknámsskóla. Ég held að það séu verulega góðar fréttir að ríkið ráðist þá í að fjármagna framhaldsskóla í tónlist og lyfti þar með því námi. Áfram er síðan verkefnið, tónlistarkennsla á framhaldsstigi almennt, og í söng á mið- og framhaldsstigi, hjá sveitarfélögunum eins og lög gera ráð fyrir og hefur í engu verið breytt; og staðfest í dómsmáli að þannig liggja málin, að ábyrgðin sé klárlega hjá sveitarfélögunum. Það varð niðurstaðan í því dómsmáli sem ég vísa hér til.

Það frumvarp sem hér er um að ræða snýr að því samkomulagi sem var gert og undirritað þann 13. apríl sl. og er um margt byggt á því samkomulagi sem var gert 2011 og framlengt, en þó er búið að breyta þar orðalagi til að loka fyrir þá túlkun sem leiddi til svo gríðarlegra vandamála hvað varðar rekstur tónlistarskóla, sérstaklega í Reykjavík. Reyndar er það svo að frumvarpið snýr auðvitað að sveitarfélögunum hér sem rekstraraðila tónlistarskólanna, það snýr að jöfnunarsjóðnum. Þetta frumvarp snýr ekki að tónlistarskólunum beint ef svo má að orði komast. Þetta frumvarp snýr ekki að fyrirhuguðum nýjum skóla fjármögnuðum af hálfu ríkisins. Þetta snýr að sveitarfélögunum sem eru rekstraraðilar meiri hluta þeirra skóla sem hér er síðan verið að fjalla um og alveg sérstaklega jöfnunarsjóðnum, þ.e. að skjóta lagastoð undir þau verkefni og innheimtu fjármuna vegna þeirra verkefna sem kveðið er á um. Ég heyrði hjá hv. þingmanni hér áðan, það mátti einhvern veginn skilja það þannig, að það væri eitthvað sérstakt eða undarlegt við það að þessi verkefni væru þarna. Þetta er auðvitað það fyrirkomulag sem var búið til árið 2011 og er um margt ágætlega skynsamlegt, þ.e. þar með kemur meira fjármagn sem er auðveldara að skipta í gegnum jöfnunarsjóðinn en á móti koma sveitarfélögin og taka þessi verkefni. Ég held að þetta sé ágætislausn.

Þess vegna kom mér á óvart að heyra hjá hv. þingmanni að það væri verið að gera þetta atriði í frumvarpinu tortryggilegt eða að þetta væri einhvern veginn undarlegt. En hvað varðar d-liðinn í athugasemdunum, um 30 milljónir til lausna á bráðavanda tónlistarskólanna, þá er það alveg rétt. Þannig staða hefur myndast í Reykjavík, vegna þess hvernig borgarstjórnaryfirvöld hafa hagað málum, af fullkomnu metnaðarleysi ætla ég að leyfa mér að segja, að grípa þarf til þessara aðgerða hér.

Aftur á móti geri ég mér vonir um að það fyrirkomulag sem við leggjum hér upp með geri að verkum að breyting verði á nálguninni hjá Reykjavíkurborg og að borgin hafi metnað til að sinna betur þeirri skyldu sem lög kveða á um hvað varðar rekstur tónlistarskólanna, því að lögin eru algjörlega skýr. Á þeim og þeirri hugsun sem þar er byggði samkomulagið frá 2011 og það samkomulag sem hér hefur verið gert og þetta frumvarp snýr að, og eins þær fyrirætlanir sem ég hef hér lýst varðandi tónlistarskóla.

Ég ætla ekki í löngu máli að fara í gegnum einstakar greinar í frumvarpinu en segja að ég held að þær séu allar til bóta. Þær skjóta skýrari lagastoð undir ákvæði samkomulagsins sem ég held að skipti máli. Meðal annars vil ég vekja athygli á því að það er ráðherra sveitarstjórnarmála sem setur nánari ákvæði um úthlutun framlags samkvæmt 1. mgr., þ.e. setur skilyrði um námsframvindu nemenda og upplýsingaskyldu sveitarfélaga. Þetta skiptir máli til að tryggja það meðal annars að tryggt sé að þeir sem eru í framhaldsnámi og njóta stuðnings hafi til dæmis lokið miðnáminu; það eru slík atriði sem frumvarpið snýr að. Þegar það er lesið sjá menn að það snýr að sveitarfélögunum og framkvæmd þeirra á samkomulaginu, lagastoðum undir einstök ákvæði. Þar með tel ég að það samkomulag sem við höfum gert muni tryggja að aukið fjármagn (Forseti hringir.) komi til tónlistarskólanna um allt land sem þau geta þá notað til að efla tónlistarmenntunina og það kemur meiri vissa og öryggi í framkvæmd þessa samkomulags.