145. löggjafarþing — 132. fundur,  15. ág. 2016.

munnleg skýrsla forsætisráðherra um stöðu þjóðmála, ein umr.

[16:51]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Það er ánægjulegt að vera kominn hér til fundar á ný og gott að það er búið að ákveða kjördag. Það er sérstakt fagnaðarefni að 38 þingmanna stjórnarmeirihluti skuli sjálfur hafa ákveðið að stytta sitt eigið kjörtímabil um heilt þing og segir meira en mörg orð um stöðu ríkisstjórnarinnar að það er niðurstaða stjórnarmeirihlutans sjálfs að ríkisstjórnin sé ekki á vetur setjandi.

Nú treysta menn sér ekki í kosningar fyrr en í lok október og út af fyrir sig er sjálfsagt að nota þann tíma sem gefst til þess að afgreiða þau mál sem liggja fyrir þinginu og sátt getur verið um. Það á ekki að vera flókið því að það eru fá stórmál sem liggja fyrir þinginu og nokkuð augljósir sáttafletir á þeim sem einhver ágreiningur er um.

Það er rétt hjá formanni fjárlaganefndar, Vigdísi Hauksdóttur, að ekkert er því til fyrirstöðu að slíta þingi í dag og efna til kosninga. Það eru engin mál sem liggja fyrir þinginu sem mega ekki bíða fram yfir kosningar. Það var raunar ráðlegging okkar í Samfylkingunni að efnt yrði til kosninga þegar í vor, að kosið yrði í maí, enda lá þá þegar fyrir að stjórnin hefði engin þau mál fram að færa sem einhverju máli skiptu þannig að þau mættu ekki bíða. Það eina sem hún hélt á lofti var eitt frumvarp um haftamál. En hvað hefur gerst frá því að við sátum hér inn í sumarið til að lögfesta það mál? Útboðið á aflandskrónunum klúðraðist. Hin lífsnauðsynlega lagasetning reyndist ekki nauðsynlegri en svo að það mál stendur nokkuð óbreytt þegar við komum aftur saman.

Auðvitað, virðulegur forseti, hefði verið miklu betra að kjósa til nýs þings í vor, að við hefðum starfhæfa ríkisstjórn með skýrt umboð og vilja og einhverja þá samstöðu sem svo sárlega hefur skort milli stjórnarflokkanna og innan stjórnarflokkanna í þeim vandræðagangi sem búinn er að vera síðan. En þegar maður er ósammála stjórnarstefnunni þá er auðvitað ekki ástæða til þess að hallmæla verkleysi. Þó að ójöfnuður hafi því miður aukist og velferðarkerfið veikst, þá getum við út af fyrir sig fagnað því að ekki hafa náð fram að ganga ýmsar þær stóru kerfisbreytingar, óafturkræfu þjóðfélagsbreytingar sem menn höfðu áhyggjur af að þessi stóri hægri meiri hluti mundi beita sér fyrir á kjörtímabilinu — með stórfelldri einkavæðingu í bankakerfinu, með því að fara inn í rammaáætlun sem tókst sem betur fer að hrinda, með því að gera langtíma varanlega samninga um einkaeign útgerðarmanna á auðlindum hafsins, með breytingum á Landsvirkjun eða með því að spilla varanlega viðræðum okkar við Evrópusambandið. Ekkert af þeim stóru málum hefur náð fram að ganga hjá meiri hlutanum. Stjórnarandstaðan hefur því stórkostlegt tækifæri í þingkosningunum (Forseti hringir.) til að boða það sem Sjálfstæðisflokkurinn ætlar að standa gegn, kerfisbreytingar sem tryggja sameign þjóðarinnar á auðlindum, þjóðgarð á hálendinu, (Forseti hringir.) endurskipulagningu fjármálakerfisins og að þjóðin fái sjálf að ráða stærstu málum landsins til lykta.