145. löggjafarþing — 133. fundur,  16. ág. 2016.

námslán og námsstyrkir.

794. mál
[14:29]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar til að byrja á því að þakka hæstv. menntamálaráðherra fyrir framsöguna og þetta stóra skref sem tekið er, að það á að byrja að veita styrki til náms sem eru tiltölulega beinir. Hins vegar langar mig til að spyrja hæstv. ráðherra hvort það hafi verið farið í kostnaðarmat á möguleikanum á því að erlendir ríkisborgarar frá EES-löndunum muni koma hingað til lands, þiggja styrkinn og vinna í 10–12 tíma á viku. Þannig háttar til að í Danmörku, þar sem er svipað fyrir fram greitt styrkjakerfi, hafa styrkveitingar til erlendra ríkisborgara EES-ríkjanna aukist um 43% síðan dómurinn féll 2013 í Evrópudómstólnum. Nú vil ég fá að vita, og ég sé ekkert í kostnaðarmatinu þess efnis að litið hafi verið sérstaklega til þess: Þarf ekki að gera nýtt kostnaðarmat? Yfirsést mér eitthvað? Mig langar til að vita hvernig ríkissjóður á að standa straum af þessum kostnaði.