145. löggjafarþing — 133. fundur,  16. ág. 2016.

námslán og námsstyrkir.

794. mál
[15:43]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Nú er þetta fyrirkomulag til umræðu núna. Auðvitað höfum við sjálfsagt flest sem höfum starfað í framhaldsskólum og kannski sinnt því starfi sem ég sinnti staðið frammi fyrir því að nemendur hafa jafnvel átt erfitt með að borga þau þó litlu gjöld sem eru í framhaldsskólum. Það eru klárlega einhverjir nemendur sem koma alltaf til með að eiga erfitt með að sækja nám. En það er alveg klárt mál, og ég veit það bara sem foreldri sem hefur sent barn í háskóla suður til Reykjavíkur norðan úr landi og reyndar í framhaldsskóla líka, að það skiptir máli hvort þú átt sterkt bakland eða ekki, hvort nemandinn hefur einhverja í kringum sig eða ekki til þess að styðja við sig vegna þess að það kostar fullt af peningum að fara í framhaldsskóla sem er ekki bókstaflega þar sem maður er búsettur, þrátt fyrir að sums staðar hafi samgöngur batnað. Einhverjir nemendur stunda nám við Háskólann á Akureyri út frá minni heimabyggð, Ólafsfirði, og fara með strætisvagni á milli á hverjum degi, en það breytir því ekki að þessu fylgir ákveðinn viðbótarkostnaður. Það er hins vegar alveg klárt mál að þeir sem þurfa að fara enn þá lengra og hafa ekki tök á þessu koma til með að sitja uppi með þyngri og lengri lán. Það er bara þannig að þessi 65.000-kall verður þá ekki vasapeningur eins og hjá þeim sem býr heima, eins og við vitum, heldur verður hann fyrst og fremst hluti af þeirri framfærslu sem viðkomandi þarf að nota.

Þess vegna hefði verið svo mikilvægt fyrir ráðherrann (Forseti hringir.) að hafa þessa sundurgreiningu sem hann vitnar til frá stúdentum meðfylgjandi frumvarpinu svo að við hefðum getað tekið (Forseti hringir.) þá umræðu strax í dag.