145. löggjafarþing — 133. fundur,  16. ág. 2016.

námslán og námsstyrkir.

794. mál
[17:02]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna. Hún var ágætlega málefnaleg að sjálfsögðu. Fyrst varðandi síðasta þáttinn sem hv. þingmaður nefndi að þá er þar engin breyting í lögum frá því sem hefur verið um áratugaskeið. Þetta er nákvæmlega sama ákvæðið og alltaf hefur verið. Ég sá þessa umræðu líka í einni af umsögnunum sem við fengum. Það var einhver smámisskilningur með þetta, það er engin breyting á því sem áður hefur verið.

Hvað varðar stöðu kvenna sem hv. þingmaður gerði sérstaklega að umtalsefni þá er áhugavert að skoða umsögnina frá stúdentaráði Háskóla Íslands, en stór hluti nemenda við HÍ er einmitt konur, og hvernig þetta kerfi kemur út fyrir nemendahópinn þar og þar með þann stóra meiri hluta kvenna sem stundar nám við HÍ. Niðurstaðan úr þeim útreikningum er sú að það sé betra fyrirkomulag, það leiði til betri efnahagslegrar niðurstöðu en núverandi fyrirkomulag. Svo geta menn velt fyrir sér hvort hægt sé að búa til eitthvað enn þá betra. Ábyggilega er það hægt en miðað við þann ramma sem við búum við, þá fjármögnun sem við höfum — og við vitum að verði frumvarpið að lögum mun það kosta töluverða fjármuni úr ríkissjóði, þannig að það er verið að bæta verulega í námsaðstoðina á Íslandi — þá blasir þetta við.

Hitt er að það er rétt að muna hvað varðar námsaðstoðina á Íslandi að, ef ég man þessar tölur rétt, um 25 þús. manns eru í lánshæfu námi, bæði á háskólastiginu og í iðn- og verknámi á framhaldsskólastigi. Um það bil 10 þús. nemendur eru síðan að taka lán núna. Sú samsetning bendir til þess að meiri hluti nemenda í lánshæfu námi taki ekki lán. Gott og vel, þá geta menn rætt hvers vegna það er og hvað það er. Það eru ýmsar ástæður til en við gerum ráð fyrir því í þessu frumvarpi að þeim muni fjölga töluvert sem munu í það minnsta taka styrkinn. Ég held að þegar upp verður staðið verði það betra fyrir íslenska menntakerfið að við styðjum við bakið á sem flestum, það séu ekki helst þeir sem fara (Forseti hringir.) í allra dýrustu skólana sem fái mesta styrkinn og hinir sem fara t.d. í hefðbundið nám á Norðurlöndunum eða á Íslandi þar sem eru ekki skólagjöld fái minnsta styrkinn. Ég held að það sé ekki skynsamlegt kerfi.