145. löggjafarþing — 147. fundur,  6. sept. 2016.

framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum 2016--2019.

764. mál
[18:41]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla nú ekki að hætta mér út í trúarbragðafræðslu, ég hef of margt um hana að segja.

Þegar kemur að hinum svokölluðu kynjagleraugum, sem er orð sem mér hefur alltaf þótt svolítið óþægilegt, mér finnst það bara óþægilegt af einhverjum ástæðum, ég veit ekki af hverju, kannski er ég bara svona vitlaus. En það virkar kannski á suma sem ákveðin mótsögn að ætla að reyna að líta á einstaklinga sem einstaklinga án tillits til kyns og setja á sama tíma á sig einhver kynjagleraugu. Ég skil það sjónarmið vegna þess að ég hef ákveðna tilfinningu fyrir því sjálfur.

En hins vegar þá er mér minnisstætt þegar ég rakst fyrst á kynjuð fjárlög. Þá hugsaði ég fyrst með mér: Vá, ætla menn að koma þessu bara inn í hvað sem er? En svo fór ég að skoða þetta pínulítið og þá sá ég strax að það er svo auðvelt að búa til eitthvert missætti án þess að ætla sér að gera það. Ég nefni einfalt dæmi; þegar illa árar í einhverjum landshluta tekur ríkið sig til og ætlar að bjarga málunum og ausa peningum í vandamálið og koma á einhverjum efnahagsumsvifum. Og hvað er gert? Jú, búin til karlastörf. Það getur verið óvænt afleiðing af slíku ef ekki er pælt í því. Þess vegna þarf það að vera meðvitað átak ef fólk ætlar sér að losa sig við svona áhrif vegna þess að það gerist ekki af sjálfu sér.

Við megum ekki gleyma því að það hvort sem okkur líkar betur eða verr þá hefur mynstrið úti um næstum því allan heim, næstum því alltaf, verið þannig að konur verða að annars flokks borgurum. Ég held að það sé mjög djúpt í samfélagsgerð okkar sem við þurfum alltaf að vera á varðbergi gagnvart vegna þess að við ætlum jú að reyna að vera aðeins siðmenntaðri en við vorum fyrir 50, 60 þúsund árum í frumskógunum eða hellunum, eða hvar svo sem við vorum á þeim tíma.

En núna ætlum við að reyna að vera í samfélagi sem byggir á jafnrétti og frelsi fyrir alla. Það þýðir að við þurfum að hugsa um þetta meðvitað vegna þess að það gerist ekki af sjálfu sér. Þótt ég aðhyllist auðvitað það skólanám sem við töluðum um held ég að þetta sé í raun og veru djúpstæðara vandamál en (Forseti hringir.) svo að það verði nokkurn tímann leyst af yfirvöldum. Það verður að koma frá okkur sjálfum sem samfélagi.