145. löggjafarþing — 158. fundur,  27. sept. 2016.

kjarabætur til öryrkja og ellilífeyrisþega.

[11:41]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir fyrirspurnina og að hv. þingmaður skuli hafa hlustað á ræðu mína. Ég hlustaði líka á ræðu hv. þingmanns og þótti hún að mörgu leyti mjög góð.

Það er alveg eins og hv. þingmaður sagði, ég nefndi það að við hefðum lagt okkur fram um að ná niðurstöðu varðandi nauðsynlegar kerfisbreytingar á lífeyriskerfi öryrkja. Í lok vinnu almannatrygginganefndarinnar, fyrst undir forustu Péturs Blöndals, og þegar hann féll frá, undir forustu hv. þm. Þorsteins Sæmundssonar, klofnaði nefndin þannig að aðilar vinnumarkaðarins og stjórnarflokkarnir náðu saman um ákveðna niðurstöðu en Öryrkjabandalagið og stjórnarandstaðan skiluðu séráliti með öðrum tillögum varðandi breytingarnar. Það voru umtalsverð vonbrigði. Það er ein ástæðan fyrir því að vinna við að skila tillögum tafðist því að menn voru að reyna sitt besta til að ná niðurstöðu í nefndastarfinu.

Í framhaldinu, eftir að ég fékk tillögurnar setti ég á fót starfshóp með helstu hagsmunaaðilum, aðilum vinnumarkaðarins, og boðað til þeirrar vinnu Landssamband eldri borgara, Þroskahjálp og Öryrkjabandalagið, til að vinna frumvarpið sjálft, svo sem til að koma að textagerð. Því miður ákvað Öryrkjabandalagið að taka ekki þátt í þeirri vinnu, mætti ekki á fundi, en við reyndum hins vegar að halda þeim upplýstum um þá vinnu. Síðan þegar í ljós kom að við gátum ekki náð saman varðandi það sem snýr að breytingum á lífeyriskerfi öryrkja, heldur aðeins varðandi eldri borgara og það frumvarp kom hér inn í þingið, ítrekuðum við ósk okkar um að hittast og vinna að ákveðinni málamiðlun varðandi breytingar á kerfinu. Við erum komin (Forseti hringir.) með ákveðin drög sem við erum nú að láta kostnaðarmeta. Ég vona svo sannarlega að ég geti síðan sett það til umsagnar á netinu.